DÖKKHÆRÐA BLONDÍNAN
Vegalaus vík
kyrrlátir dagar
ráðstefna nætur
við röð augnablika.
Þess konar þögn
sem tárin þekkja.


Af hverju hafði hún
fullkomnar kúrfur
sem Skaparinn
af óskiljanlegu örlæti
hafði rétt henni
meira en öðrum
kannski í hugsunarleysi
kannski af yfirlögðu ráði.
Hafði strákurinn kannski
við sama tækifæri
fengið eitthvert forrit
einhverja sérstaka vitneskju
um að hún vildi deila
með honum holdi
deila með honum
þessum guðdómlegu línum
þessari stærðfræðilegu fullkomnun?


Var hún afsprengi
einhverrar formúlu
einhverrar formskapandi veru
einhvers mótandi eðlis
eða hönnuðar búninga
stjórnanda leiksviðs
lögmanns hreyfinga
eða vefarans mikla.


Við þessa opinberun
þessa hugmynd ástarinnar
var eins og veruleikinn
væri á reglubundnu iði
að andardráttur lífskonunnar
stæði einhvernveginn í sambandi
við titrandi alheimsskautið
að lífið þráði upphaf
og endalok alls.


Hann sér varir hennar
bærast í svefni
sólstafi leika í hári
og skugga flýja.
Hann sér hana vakna
koma aftur til lífsins
finnur aftur ilminn
af líkama hennar
skilar erindi sínu fljótt
og horfir á hana klæðast.
Eins og ekkert hafi gerst
eins og heimurinn
sé enn á sama stað
eins og stjarnfræðilegar
vegalengdir væru ekki komnar
til móts við endamörkin
þessir fimmtán milljarðar ljósára
ekki á enda runnir.


Seinna sáust þau á götu
kannski á kaffihúsum
svona eins og af tilviljun
eða kannski alveg óvart.
Þá opnaði hann textabókina
með helgirúnum Egyptalands
sem lektorinn hafði áritað
svolítið annarshugar
eins og einhver sjálfskipaður
fulltrúi mannspekinnar.


Hann sýndist upptekinn
áttavilltur yfir hagsýni ástarinnar
langaði mest að hrópa
á eftir henni.
Var hún búin að gleyma
hugmynd ástarinnar
þegar orðin missa kjarkinn
þegar hvert andartak
er þrungið og örlögin ráðin?


Vegalaus vík
kyrrlátir dagar
ráðstefna nætur
við röð augnablika.
Þess konar þögn
sem tárin þekkja.  
T.G. Nordahl
1960 - ...


Ljóð eftir T.G. Nordahl

MYRKUR LOKAÐRA AUGNA
HUGMYND ORÐANNA
BETLEHEMSKIRKJAN
REYKJAVÍK
DÖKKHÆRÐA BLONDÍNAN
LJÓSBROT
SARAJEVO
UNDIR HÚÐINNI
SÆT ER ÞÍN ÁRA LÁRA