Eftirköst
Kæri Hnýsinn minn, til mín
miðinn spurning benti:
hvort að bréfið það til þín
þyrði að sjá á prenti.

Ekki þarf í það að sjá
-þér ég aftur gegni -
ég er bóndi, allt mitt á
undir sól og regni.

Þó að einhver þykkist mér,
það er smátt að tapi.
Veðuráttin aldrei fer
eftir manna skapi.

Mér var heldur aldrei um
að eiga nokkru sinni
málsverð undir embættum
eða lýðhyllinni.

Bóndamanni er bótin sú
við brestum skrauts og náða:
fleðuskapinn heimahjú
hann þarf síst að ráða.

Eins er hitt: hvort ókvíðinn
ég sé við þá prentun,
sem þó skorti skilyrðin,
skólaganginn - menntun.

Örðug verður úrlausn hér,
illa stend að vígi.
Hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.

Það er satt, að menntun mér
mislögð víst er fengin.
Ef við hámark hana ber,
hún er næstum engin.


En ef þú ert aðgætinn
- á þó minna beri -
sérðu víðar, vinur minn,
vondan brest í keri.

Hámenntaða virðum vér
vora lærdómshróka,
sem eru andleg ígulker
ótal skólabóka.

- Þitt er menntað afl ög önd,
eigirðu fram að bjóða:
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.

Frá því marki manninn þann
ég menntaðastan dæmdi:
flest og best sem var og vann,
það vönduðum manni sæmdi.

En í skólum úti um lönd
er sú menntun boðin:
fátt er skeytt um hjarta og hönd,
hausinn út er troðinn.

Jafnvel þessi stefna sterk
stundum heppnast illa.
Það kvað undur örðugt verk
ýmsra koll að fylla.

Hún er í molum menntun enn
- um mína ei ég senni -
hitt er fjandi, að færir menn
flaska líka á henni.

Ég gat hrifsað henni af
hratið, sem hún vék mér,
meðan lúinn makrátt svaf,
meðan kátur lék sér.  
Stephan G. Stephansson
1853 - 1927
Þegar Stephan G. var ungur maður á Íslandi langaði hann ósköp mikið til að ganga í skóla, en sökum fátæktar var það ekki hægt. Má ætla að það hafi setið í honum að fá ekki að mennta sig, en hann hefur líka ákveðnar skoðanir á því hvað í raunverulegri menntun felst.


Ljóð eftir Stephan G. Stephansson

Við verklok
Úr Íslendingadagsræðu 1904
Eftirköst
Afkastaleysið
Íslenska þokan
Dimmnætti
Útþynningar
Hugur og hjarta
Fósturlandið
Íslenskur kveðskapur