Arnljótur gellini
Lausa mjöll á skógi skefur,
skyggnist tunglið yfir hlíð;
eru á ferli úlfur og refur,
örn í furu toppi sefur;
nístir kuldi um næturtíð.

Fer í gegnum skóg á skíðum
sköruglegur halur einn,
skarlats kyrtli sveiptur síðum,
sára gyrður þorni fríðum;
geislinn hans er gambanteinn.

Eftir honum úlfar þjóta
ilbleikir með strengdan kvið;
gríðar stóðið gráa og fljóta
greitt má taka og hart til fóta,
ef að hafa á það við.

Hefur hann á mörkum marga
munntama þeim gefið bráð;
sjálfs hans ævi er álík varga,
einn sér verður hann að bjarga,
hefur safnað ei né sáð.

Með ráni og vígum rauna hnútinn
reið hann sér og auðnu tjón;
á holtum og á heiðum úti
hýsa hann eikar stofn og skúti;
hvergi er honum frítt um frón.

Ýmsar sögur annarlegar
Arnljóts fara lífs um skeið;
en - fátækum hann þyrmir þegar,
og þeim, sem fara villir vegar,
vísar hann á rétta leið.
 
Grímur Thomsen
1820 - 1896
Í formála sínum að Ljóðmælum Gríms frá 1969 segir Sigurður Nordal um kvæðið:
?Hómer hefur verið dáður fyrir lýsingarorð, sem eru ekki betur mynduð né valin en ilbleikir í kvæðinu um Arnljót gellina.... Þetta eina orð, sem sá hyggur valið af handahófi, er illa les, felur í sér heila lýsingu á hraða og fótaburði varganna: þeir teygja sig svo á hlaupunum, að sér í bleikar iljarnar, þegar þeir bregða upp afturfótunum.?


Ljóð eftir Grím Thomsen

Ólund
Þrír viðskilnaðir
Huldur
Á Glæsivöllum
Rakki
Vörður
Arnljótur gellini
Á sprengisandi
Skúlaskeið
Ólag
Landslag
Á fætur
Heift
Sólskin
Átrúnaður Helga magra
Bergþóra
Álfadans