SÆT ER ÞÍN ÁRA LÁRA
þú ert holdgetinn draumur
með silkimjúk sköp
munaðarleg með mjúka nöf
þú ert mín drottning
ég ýti úr vör
bylgju þína sigli ör.

Úr legu er látið
með öngulinn þrútinn
að lóða í þitt djúp
já sæt er þín ára Lára
og gæfturík þín mið
kvöldroðinn leikur við klöpp.

Við bifandi brjóst
er ég endurfæddur
þegar fley þitt titrar
ungdómsbárum
í stafni þínum
helgidómur.

Þú ert klettur í hafi
brjóst þín dulmál
ég fitla við þína spöng
með tárin í skefjum
við sælubjargið
í alheimsfuglaþröng.

Þú ert lilja vorsins
á iðgrænum völlum
blómstrandi viðja
í ölvuðum vitum
í skugga þínum
vil ég ætíð dvelja.

Undirlandið frjósamt
ég plægi þinn akur
risti þín leirljósu lönd
með stöngulinn þrunginn
silfurstrenginn
geymi þessa nótt.

Ég er Freyr, þú Freyja
ég faðma þína fold
heilagt brúðkaup
á grænum velli
þar titrar
lítil brá.

Í jarðhelli fínum
smyrsl þín sæt
ég drep á þínar dyr
lífsrjómann og
dropa sælu, geymi
við unaðs hlið.

Þú ert gróðurinn
í dalnum, bunulækur
lítil klettaskora.
Við þinn munaðarreit
vil ég halda hjörð
minni til haga.

Þú ert brunnur lífsins
unaðshóll, venusarhæð
og fagrabrekka.
Við altari þitt
dvelur þrá mín
oft við aftantíðir.

Við titrandi túnið
sjö hestar, sjö kornblóm
sjö sólstafir dala
yfir búk í bylgjum
huliðsmáttur handa
skjálftinn horfinn.

Þú ert myrra og balsam
við seiðandi strönd
ljósmóðir ljúf með
svimandi þokka
í huganum þekki ég
öll þín lönd.  
T.G. Nordahl
1960 - ...


Ljóð eftir T.G. Nordahl

MYRKUR LOKAÐRA AUGNA
HUGMYND ORÐANNA
BETLEHEMSKIRKJAN
REYKJAVÍK
DÖKKHÆRÐA BLONDÍNAN
LJÓSBROT
SARAJEVO
UNDIR HÚÐINNI
SÆT ER ÞÍN ÁRA LÁRA