Fall mannsins
Hjartað slær ótt en yfirvegað
meðan nýjar víddir sannleikans ljúkast upp
augljóst eins og við hefðum alltaf vitað.
Hvað með það þó við séum nakin!
Nóg er til af laufinu.
Eins og saklausir yrðlingar rífa í sig hrátt kjöt
og slefa úr blóðugum skoltum í áfergju sinni,
svo sökktum við syndlausum tönnum
í forboðna ávöxtinn.

Bragðið
það var eiginlega eins og af skýi
dúnmjúkt og svífandi,
líkast því að það hefði aldrei verið til
að þetta hefði aldrei gerst.

,,en af skilningstrénu góðs og ills
mátt þú ekki eta,
því að jafnskjótt og þú etur af því
skalt þú vissulega deyja.”



Óviss í sinni sök
þó viss um sökina
og óvissan...
Þetta var eiginlega ekki synd
ef maður pælir í því.
Hugsanir
hljóma svo hátt í þögninni
í óvissri biðinni.
Við eru ekki dáin!

Bragðið
loðir við tunguna eins og froða.
Svarthol í hjartanu,
óp sem langar í meira
veit bara ekki hvað
veit bara það
að nú er það komið á bragðið.
Það er eitthvað horfið
en ef við myndum borða bara aðeins meira...

xxxxxxxxxx

Eins og hundur án húsbónda
villtur og týndur maður í heiminum
guðlaus og ráfandi útlagi
sem tilheyrir ekki lengur þeim stað
þar sem hann var skapaður.
Hvaðan kom ég?
Trúi varla eigin minningum
sem á daginn eru eins og næturdraumar
en á nóttunni dreymir mig aðeins það
sem ég geri á daginn.

Bragðið?
Hvaða bragð?
Það er horfið og gleymt að fullu.
Hungrið er blindað í myrkrinu
og hleypur á veggi í sálinni
eltandi torskilið en kunnulegt bergmál:
Eden!
Eden!
Guð!
Heim!
Heima!
 
Hörður Andri Steingrímsson
1982 - ...
Úr Í upphafi skapaði Guð


Ljóð eftir Hörð Andra Steingrímsson

Dýrgripir
Frá skrifstofu hins hæsta
Beðið í leynum
Fall mannsins
Lofsöngur