Dettifoss
Þar sem aldrei á grjóti gráu
gullin mót sólu hlæja blóm
og ginnhvítar öldur gljúfrin háu grimmefldum nísta heljar-klóm,
kveður þú, foss, minn forni vinur,
með fimbulrómi sí og æ;
undir þér bergið sterka stynur
sem strá í nætur-kulda-blæ.

Kveður þú ljóð um hali horfna
og hetju-líf á fyrri öld;
talar þú margt um frelsið forna
og frægðarinnar dapra kvöld.
Ljósgeislar á þér leika skærir,
liðnir frá sól í gegnum ský;
regnboga-litir titra tærir
tröllauknum bárum þínum í.

Ægilegur og undrafríður
ertú, ið mikla fossa-val;
aflrammur jafnt þú áfram líður
í eyðilegum hamra-sal.
Tímarnir breytast; bölið sára
það brjóstið slær, er fyrr var glatt;
er alltaf söm þín ógnar-bára
ofan um veltist gljúfrið bratt.

Stormarnir hvína, stráin sölna, stórvaxin alda rís á sæ,
á rjóðum kinnum rósir fölna
í regin-köldum harma-blæ,
brennandi tár um bleikan vanga
boga, því hjartað vantar ró
- en alltaf jafnt um ævi langa
aldan í þínu djúpi hló.

Blunda vil ég í bárum þínum,
þá bleikur loksins hníg ég nár,
þar sem að enginn yfir mínu
önduðu líki fellir tár;
og þegar sveit með sorgar-hljóði syngur döpur of ann´ra ná,
í jörmun-efldum íturmóði
yfir mér skaltu hlæja þá.
 
Kristján Jónsson
1842 - 1869
Ljóðið Dettifoss birtist fyrst í blaðinu ,,Íslendingi" árið 1861. ,,Vakti það svo mikla eftirtekt, að höfundur þess, vinnupilturinn á Fjöllunum, var nú orðinn þjóðskáldið Kristján Jónsson." Er kvæðið enn þann dag í dag talið með fegurstu kvæðum sem kveðin hafa verið á íslensku í þessum anda, og er eitt af bestu kvæðum Kristjáns.


Ljóð eftir Kristján Jónsson

Vonin
Gröfin
Ekki er allt sem sýnist
Dettifoss
Staka
Kveðið á Sandi
Haust
Tárið
Þorraþræll
Delerium tremens eða: Veritas in vino.