Vonin
Kvað er líf og kvað er heimur?
Klæddur þoku drauma-geimur,
þar sem ótal leiftur ljóma,
er lifna, deyja´ og blika´ um skeið.
Hvað er frægð og hreysti manna?
Hvað er snilli spekinganna?
Það er af vindi vakin alda,
er verður til og deyr um leið.

Allt, sem lifir, lifa girnir;
lífið heli móti spyrnir.
Þegar lífsins löngun hverfur,
lífið er eðli sínu fjær.
Hetjan, sem vill heldur deyja,
en harðstjórans und vald sig beygja,
lífi sínu´ ei lifað getur
lengur, en meðan sigrað fær.

Þungskilið er lögmál lífsins;
um leiðir huldar gleði´ og kífsins
flytjumst vér, sem fyrir straumi
fljóti gnoð um sollið gráð.
Sama alda allt fram hrekur;
ýmsar stefnur lífið tekur;
sérhvað eðli sínu hlýðir
sínum föstu lögum háð.

Ó, hve mjög um ævi-brautir
ýmsar lífið særa þrautir,
og í brjóstum ekka þrungnum
óteljandi hjörtu slá.
Ótal hníga angurs-tárin,
ótal svíða hjarta-sárin.
Ó, hvað þá svo aumum manni
ást til lífsins vekja má?

Það er vonin blíða´ og bjarta,
best er friðar órótt hjarta,
himinsæla´ í harma-geimi,
helgast lífsins andar-tak,
heimsins ljúfust leiðar-stjarna,
ljós á vegum foldar-barna,
böli mæddan hressir huga
og harmi snýr í gleði-kvak.

Þú af drauma-himni háum
hjúpuð ljóma fagurgljáum
o´n á lífsins ægi fellir
undurbjartan geisla-staf;
að þínum ljóma ávallt allar
öldur lífs, sem rísa´ og falla,
sækja fram í sjálfan dauða
seiddur þínu brosi af.

Áfram geisar alda-straumur;
allt er lífið myrkur draumur
sælublöndnum sollinn hörmum
sjónhverfing og leiðsla hál.
Allt, sem hefur upphaf, þrýtur;
allt, sem lifir, deyja hlýtur;
vonin lífs er verndar-engill,
von, sem þó er aðeins tál.  
Kristján Jónsson
1842 - 1869
Um ljóðið skrifaði Jón Ólafsson að það væri ,,líklega hið fegursta kvæði, er Kristján
hefir ort og vafalaust hið fegursta kvæði í sinni röð, er ort hefir verið á voru máli.”
Ljóðið orti Kristján árið 1862, en þá er hann einungis tvítugur að aldri, vinnumaður á
Hólsfjöllum.


Ljóð eftir Kristján Jónsson

Vonin
Gröfin
Ekki er allt sem sýnist
Dettifoss
Staka
Kveðið á Sandi
Haust
Tárið
Þorraþræll
Delerium tremens eða: Veritas in vino.