Myrkviði
Til eru auðmenn hér í Vestrinu sem
þykir fínt að nota uppstoppaðar hendur
górilluapa fyrir öskubakka. Þar af
leiðandi eru einnig til veiðimenn sem
gera sér ferð til að sækja slíkan
varning. Þetta veit ég af því að til
eru sjónvarpsmenn sem elta ósómann uppi
og sýna mér, þar sem ég sit og gef
ársgömlum syni mínum pela fyrir
svefninn. Elsku barn, mér líður stundum
eins og apa á trjágrein, varnarlausum
með afkvæmi sitt í fanginu. Þegar þú
ert sofnaður skal ég fara niður í
geymslu; þar í myrkrinu leynist
örugglega apabúningur og riffill. Pabbi
skal fara til Afríku að skakka leikinn.
Og best að taka til hendinni í
Reykjavík líka – París, London, Róm;
varið ykkur, þrjótar og illmenni allra
landa! Og þó, líklega gerum við best í
sitja sem fastast á trjágreininni okkar
og brosa framan í myndavélarnar. Aldrei
að vita nema okkur verði leyft að fara
með ljóð. Verst að vera ekki
hagyrðingur upp á gamla mátann, en við
gerum okkar besta.
 
Bjarni Gunnarsson
1968 - ...


Ljóð eftir Bjarna Gunnarsson

Ástarbarn
Myrkviði
Kona
Apríl
Litla líf
Kókópuffskipið