Tvöþúsund vandinn og vondar bíómyndir.
(Nytsamur sakleysingi auglýsir eftir skónum sínum)

Á ævi minni, hér vestur í heimi, hef ég séð of margar lélegar bíómyndir
og á minni ævi í austurvegi, einnig þar hef ég séð margar margar
lélegar bíómyndir
og allar bækurnar sem ég hef lesið á minni miðlungs æfi…

Ó já já, ég skapaði í huga mínum hreina snilld
við lestur lélegra bóka!

Þér trúlausir!

Komið og sjáið hugmyndirnar, framkvæmdagleðina,
bitra ávexti hugmyndasukksins!

Komið og sjáið:

VerdunPétursborgLeníngradGallipoli
ÞýskalandNóttHinnaLönguHnífa
KristalnóttSovétiðSíbería
EyjaklasinnGulag
Guernica
VarsjáLondonStalíngrad
Dresden
BerlínAuschwitzBirkenau
SovétiðEyjaklasinnGulag
OgHirosímaVíetnamKambodía
ChíleGvatemala
AfganistanSovétið
EyjaklasinnÍranÍrak
Kúveit

svo fylli ég í eyðunnar --- með blóði Sómala
LíberíumannaRúandaHútúaTútsa
BosníuMúslimaSerbaKróata
og KosovoAlbanaSerba

Ár til stefnu að skrá sig á sláturspjöldin aldarinnar.

Með hluttekningu minnist ég Vinafélags Íslands
og Albaníu (blessaðir einfeldingar) Jaa..
Vinafélag Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína lifir.
Það lifi!
Í skúffu hjá miðaldra karlmanni í Reykjavík.

Mikið var gaman að líta ljóðin hans Maó í Ráðhúsinu hérna… nei!
Tölum ekki tæpitungu.
Hvers mega sín tvö þúsund ljóðavers í móti tveim milljónum?
Það eru dauðir landeigendur.
Hvaða eilífu snilld, víðfeðmi í táknmáli, hversu smágerða fegurð
þarf að setja í eitt ljóð, til að vega salt
á móti þessum fimmtán milljónum smábænda
sem þú drapst í einu Stóru stökki?
Maó! Maó!
Þessum smávinum varst þú enn ein hungurvofan.

Tölum ekki tæpitungu, ég hef ekki gleymt Tíbet,
samviskuföngum og frelsisvinum

í hljóðlátri bæn set ég svart strik
í kladda Kínversk Íslensku verslunarnefndarinnar
(kladdanum stal ég í júníbyrjun frá Suðurlandsbraut 22,
108 Reykjavík og af lyktinni vissi ég strax
að þetta voru blóðpeningar Rauða Alþýðuhersins
af torgi hins himneska friðar)

Ég veit að Himininn er opinn, kvalarópin stíga upp.
Guð hlýtur að brosa í gegnum tárin,
hann skilur allra best íroníu mannanna.

Segi eins og er að á minni ævi hér fyrir vestan læk
hef ég lesið of margar lélegar bíómyndir og austur á fjörðum einnig.
Og alltof margar lélegar bækur hef ég séð út um allt.

,,Þegar bókabrennur hefjast líður ekki á löngu
þar til farið verður að brenna fólk“ sagði kallinn Heinrich Heine.
Og ég er að læra. Lesa og lesa betur til glöggvunar og hugrekkis.
Eða, hef ég misskilið lífið?

Og syndir mannana frá upphafi,
get ekki borið þær á veikbyggðum herðum mínum,
hún nægir mér Vígúlfaöldin númer eitt,
hinn einasti og sanni tvöþúsund vandi!

(Og tvöþúsund vandinn hvað?)

Höfum við ekki nægilega marga tæknimenn?
Tölvumenn? Vantar fleiri innstungur?
Vandinn er svona einfaldur skammtur af samviskuvanda.
20. öldin gerir barasta ekkert ráð fyrir 21. öldinni.
Það vantar dagsetninguna!
Guð minn almáttugur! Og öll þessi börn komin í heiminn!
Haldiði okkur verði fyrirgefið að drepa ekki alla,
sérstaklega þegar Guðdómur dagsins í kísilflögunni fer að hiksta?
Við höfðum þó Sprengjuna! Helsprengjuna.

…Vantar dagsetninguna, enginn gerði ráð fyrir lífi.
Falleinkunn 20.aldarinnar.

Og Guð sagður dauður
og ekki var það loftsteinn eða drepsótt,
varla nokkur kirkja eða trúfélag að pynta, drepa.. - trúvillinga.
Nei, aðeins maðurinn - sjálfur - ég - á eigin ábyrgð!
Sífellt meira ein- manna- maður.

Í raun og sannleik held ég að Guð hafi aðeins örsjaldan
brosað í gegnum tárin.

Drottinn,

ég finn ekki skóna mína,
held að ég hafi verið illa skóaður mestan part aldarinnar.
Hefur nokkur séð skóna mína?



 
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson
1952 - ...
Þetta ljóð er skirfað 1999, eins og það ber með sér voru miklar umræður um "tvöþúsund vandann" í tölvuheiminum.


Ljóð eftir Sveinbjörn Kristinn

Tvöþúsund vandinn og vondar bíómyndir.
Bæn
Yrðingar 1.
Yrðingar 2.
Vegferð á blákyrri nóttu - 1
Vegferð á blákyrri nóttu - 2
Vegferð á blákyrri nóttu - 3
Kvöld
Trommuskógar eitt
Vígúlfur
Sjáðu manninn
Öræfadraumur
"Öll ertu fögur vina mín"
Nótt
Á eyjunni Hvar
Vetrarríki