Næturfjöll
Ég sé nóttina
safna til sín fjöllunum
mjúklega
einsog hæna ungum sínum
og breiða yfir þau
gagnsæjan væng

Þau móka undir vængnum
óhagganlega þögul
sem búi þau yfir váboða
eða annarlegri kvöl
og kvíði dagrenningu
að hætti tröllkvenna

Er það forneskja
sem seiðir mig til þeirra
undir væng næturinnar
eða dulræð von
um að heyra
Gunnar syngja í haugnum
Helga kveðja Sigrúnu?

Athvarf mitt er annarstaðar
enn um sinn  
Sigurður A. Magnússon
1928 - ...
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Sigurð A. Magnússon

Ónýtir dagar
Svik
Öldur
Spegill
Svefnrof
Næturfjöll
Dagar
Dalakyrrð
Þetta er þitt líf
Við dánarbeð
Barn týnist