Hamingjan
Að gleyma sér
í algleymi
hafsins.
Sameinast
einhverju stærra.
Vera ekki föst
í litlum líkama
sál í litlu höfði.
Sameinast heiminum
gleyma sjálfinu.
Að hverfa.
Er það ekki
æðsta sæla?

Standa í fjöruborðinu
og skynja úða brimsins.
Öldurnar berjast
reglubundið við land
eins og hjartsláttur.
Hjarta mitt slær
í takt og hugur minn
flýtur,
flýtur í burtu
frá veruleikanum
veruleikanum sem er
bundinn við hjarta mitt.

Naprir vindar
skerast í lungu mín.
Er innilokað loft
fjögurra veggja
veruleikinn
eða flóttinn?

Eru dauðlegir
samferðamenn mínir
veruleikinn
eða ódauðlegt hafið?

Hvað er lífið
annað en leiðin
til algleymis
hafsins?
Takmarkið þekkjum
við öll.
Og hið sama takmark
bíður okkar allra.

Svo gleðjumst.
Gleðjumst þessa stuttu stund.
Þessi fáu augnablik
sem okkur eru boðin.
Svo öndum,
öndum djúpt að okkur
nöprum vindum
og látum hjörtu okkar
slá í takt við brimið,
brimið sem bíður.

Stöndum á klettinum
og öskrum.
Gnýr brimsins gleypir það
hvort eð er.

1994
 
Ásta Svavars
1970 - ...


Ljóð eftir Ástu Svavars

Hamingjan
Á stoppistöð
Úti á reginhafi
Kassinn
Litur ástarinnar
Sorgarrendur
Örvæntingarfull kona með flugbeittan hníf í hendi
Fiskiðjan \'93
Bergmál
Um nótt
Idíóskur andskoti
Skyndilega
Að morgni
Draugagangur í sálinni
Tilfinningagrafreitur
Einar ódrepandi
Til þín
Björg
Einherjinn