FYRIR INGU
Í skini ljóssins
marka skuggarnir rýmið
og skilning minn
á stöðu sjálfs mín
í heimi hlutanna.
Svo kemur upp vandi.
Það er til fólk
sem býr til hluti
sem eru ekki hlutir
sem skapar einingar
sem eru ekki
nema óræðir
og illskiljanlegir
skuggar af sjálfum sér
og skuggarnir móta
og marka skilningsleysið
sem er á milli mín
og hlutanna.
Form og útlit
taka merkingu úr
inntaki sínu
og inntakið
er í höfði skapar síns,
sem eilíft leyndamál hans.
Það verður ekki rætt
í heyranda hljóði.
Verður varla skoðað
í skini ljóssins.
Verður varla skilið
í huganum.
Nú eru það skuggar
skilningsljóssins,
sem marka stöðu mína
meðal hugmyndanna
sem varpað var
inn í huga minn
úr heimi hlutanna.
Nei og já.
Lengi má manninn
og huga hans reyna.