U-beygja
Reglulega

gauka ég afgangnum mínum

til svöngu barnanna

í Bíafra vegna þess að

litli strákurinn á bauknum í búðinni

horfir svo dapur á mig

og ég er alveg agalega svag

fyrir litlum strákum með stór og döpur augu.

(Mig langar að biðja þig

lítillar bónar)

Reglulega

veiti ég líka þeirri manneskju atkvæði mitt

sem mér þykir líklegust til velvildar

í garð þeirra sem mega sín minna eða jafnlítils

og ég.

Heldur þú kannski að þetta sé móralskt ljóð?

Heldur þú að ég yrki friðþægingarljóð?

(Mig langar að biðja þig

lítillar bónar)

Hahaha, þar gabbaði ég þig.

Þetta er sko ekki eitt af þessum

mórölsku ljóðum.

Það hófst bara á þessum staðreyndum úr lífi mínu

fyrir tilviljun. Eða mistök.

Þetta er kannski einskonar ástarljóð.

Eða ástríðuljóð.

(Mig langar að biðja þig

lítillar bónar)

Eða ævintýraljóð.

Eða handaljóð.

Já, einmitt.

Ljóðið mitt fjallar um tvær vestfirskar hendur

sem hvíla við endann á ógnarlöngu

og kafloðnu handleggjaflæmi

og mig langar að bíta í þessar hendur

eða baða mig í þeim.

(Mig langar að biðja þig

lítillar bónar)

Má ég leggja hendur mínar í þínar?

Viltu vera mér ævintýri í fjóra daga af lífi mínu?  
Hildur Lilliendahl
1981 - ...


Ljóð eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur

Um auðtrú hins nakta karlmanns
Óreiða
afi
Vonbrigðin þín
óljóð
Konan sem vorkenndi mér
Litað gler
Ferð eftir malbiki
Opið bréf til barna Íslands
Einmitt nákvæmlega akkúrat svona með fyrirvara um nauðsynlegar breytingar á hegðun atferli og framkomu
U-beygja
Skammtímamarkmið?
ljóð handa manni með þýskt eftirnafn og konu sem yrkir fiðrildaljóð