Selvogsgata.

Um grýtta mela og gróin holta börð
sér glöggt á forna löngu troðna slóð
við úfið hraun og illfær fjalla skörð
hvar einn af öðrum áfram leiðir tróð.

Þá götu en má greina um langa hríð
hvar gengu lúnir fætur heim á leið
úr kaupstaðnum er komið var um síð
með klif á baki, ei var sú förin greið.

Þar langa mátti oft lest í ferðum sjá
er liðaðist um hraunsins grýttu slóð
en fyrir gjótur sneiddi og djúpa gjá,
nú greindi heimahaga augans glóð.

Í björtu veðri um blíða sumars daga
oft brosti náttúran á leiðum manna
en mörg hér skeði og merkileg oft saga
svo margt er augað gældi við að kanna.

Í byljum vetrar, bráð var hætta búin
er barist var í kulda og myrkri nætur
þá gerðust mörg á göngu sinni lúin,
hér greri yfir landsins syni og dætur.

Svo merkileg er mörgum gamla sögnin
og mikilvægt að enginn hennar missi,
en marga hluti og merka hylur þögnin
og margt er það sem aldrei nokkur vissi.
 
Dagbjartur Sigursteinsson
1934 - ...


Ljóð eftir Dagbjart Sigursteinsson

Vorkvöld við sæinn
Vorkoma nýrrar aldar
Stormur
Þú ert
Sólris
Selvogsgata.