Stormur
Þú stormur er stórvirkin fremur
og sterklega þýtur um dalinn.
Með framandi ferskleikann kemur
og feykir því sölnaða í valinn.

Þinn stiykleika stöðugt ég þrái
er sterklega vanga þú strýkur.
Þú þeytir brott þróttlausu strái
og þokunni burtu þú víkur.

Þú mjöllinni þyrlar og þeytir
og þrekleysið burtu þú máðir.
En lognmollu látlaust þú breytir
í logandi ólgu og dáðir.

Þú stormur ert styrkleikans merki
þig stöðvar ei hik eða hroki.
Já sýndu nú vald þitt í verki
svo verðirðu að hífandi roki.

 
Dagbjartur Sigursteinsson
1934 - ...


Ljóð eftir Dagbjart Sigursteinsson

Vorkvöld við sæinn
Vorkoma nýrrar aldar
Stormur
Þú ert
Sólris
Selvogsgata.