Vorkoma nýrrar aldar
Í dag sungu fuglar frá suðlægum löndum
er svifu yfir höfin á vængjunum þöndum.
Þeir færa okkur vonir um frjálsari daga
með fögnuð í hjörtum og blómum í haga
og firra okkur vetrarins helköldu böndum.

Þeir færðu okkur vorið á friðsælum degi.
Þú frjálsborni vængfari á farandans vegi
ert vorboðinn ljúfi, nú vetrinum lýkur
og vondöprum hugsunum burtu þú víkur
svo vorkomu í hugann og fögnuð ég eigi.

Þú víðförli fugl er á væng þínum svífur,
um vordægrin löng, ofar jörðu þú klýfur
þá vinda er blása oss vonum að brjósti
og vernda okkur ávalt gegn veraldar gjósti.
Þín vegferð um háloftin ávalt mig hrífur.

Er vorþeyr um greinarnar varlega líður
og vermir þær sólin, en sumarið bíður
til lífsins að vakna og litskrúði klæðast.
Sjá, ljósið að nýju er loksins að fæðast.
Í lengd og í bráð verður andvari þýður.

Þessi byrjandi öld vekur bjartsýni og þrár.
Þetta blómgandi vor gleður vaknandi brár
og hin geislandi sól gefur guðdómleg heit.
Þannig gróandi vor sem að fegurst ég leit
er hið guðlega tákn, vorrar heitustu þrár.
 
Dagbjartur Sigursteinsson
1934 - ...


Ljóð eftir Dagbjart Sigursteinsson

Vorkvöld við sæinn
Vorkoma nýrrar aldar
Stormur
Þú ert
Sólris
Selvogsgata.