Heimþrá
Ég læt mig stundum dreyma í dagsins önn
um daga langa
og landsins bjartar nætur.
Þar lækir streyma úr stórri fönn,
sverfa niður tímanns tönn
og tifa um hvannarætur.

Ég læt minn huga líða um hafsins rót
við háa kletta
og kaldar landsins strendur.
Þar fuglar kvaka um klofin grjót
kunna lítið mannamót
að meta um þessar lendur.

Ég læt minn huga reika um hetjuslóð
á heiðum uppi
við heitar landsins lindir.
Þar orti ég mín lífsins ljóð,
um ljúfa ást og fögur fljóð
og fagrar fjallamyndir.

Ég læt mig stundum fljúga um háreist fjöll
við fögur gil
og gráblá landsins grjót.
Þar dvelja stundum tvíefld tröll
sem takast á um víðan völl
og váleg jökulfljót.

Ég vakna að lokum upp af dagsins draumi
við dauflegt stræti
í stórri heimsins borg.
Heimþránna ég læt í laumi
líða frá í sterkum straumi
og stöðva mína sorg.



 
Halldór Þór Wíum Kristinsson
1959 - ...


Ljóð eftir Halldór Þór Wíum Kristinsson

ófundinn
sjálfstæðið
Lífsins skáld
Half Down
Heimþrá