Víkingar
Það húmar – og hafgúan raular
svo hljóðan dularóð,
en lengst í vesturvegum
vakir hin hinsta glóð.

Eitthvað svo undarlegt hvíslar
innst inn í minni sál
um hafsins ótal undur,
sem öldurnar hefðu mál:

Víkingar héldu á hafið
og hugðu nema lönd;
þrengri og þrengri varð þeim
hin þögla, gamla strönd.

Drekarnir stefndu frá ströndu,
stormurinn söng við rá
og leiddi þá langt út á hafið,
en landið var hvergi að sjá.

Þeir sigldu og sigldu yfir
hinn salta öldugeim,
uns vonirnar voru dauðar.
En þeir vildu´ekki snúa heim.

Þá brenndu þeir báta sína;
það bál skein langt yfir sjá.
Þeir litu við hinsta logann
það land, er þeir vildu ná.

Og reykurinn leið um loftið,
hann lokkar frá kaldri strönd,
því alltaf er særinn samur
og söm hin ónumdu lönd.  
Jónas Guðlaugsson
1887 - 1916


Ljóð eftir Jónas Guðlaugsson

Blundar nú sólin
Ég veit
Leita landa!
Já, þú ert mín!
Þjóðskáldið
Bak við hafið
Víkingar
Til kunningjanna
Jónas Hallgrímsson
Hamingjan er sem hafið
Blundar nú sólin
Ég finn að fátæk ertu
Draumur og vaka