Skin og skúrir
Þegar haustar að í hjarta mínu
hef ég þörf að dvelja í orði þínu
Upplifa kærleik þinn og kraft að verki
kletturinn minn styrki og ofursterki.

Þegar ég átt hef yndælis sólarstundir
enn á ný kemur haustið og fölna grundir
Aldeilis verða það ekki fagnaðarfundir
fegin ég vildi, Drottinn, að þú mundir

fylla líf mitt af löngum sumardögum
lækjanið og fuglanna söng og lögum
Gleðjast ég myndi sérhvern dag og dreyma
dæmalaust mikla sælu og sorgum gleyma

En hvernig væri lífið án vinda og vanda
væri það eintóm ánægja mér til handa?
Myndi það gera mér gott aldrei að gráta
og gera mig sterka ef ekkert myndi’ á bjáta?

Ég eitt sinn las í bók fyrir litla krakka
að kærlega ætti ég fyrir allt að þakka
Tilgang rigningardagar dimmir hefðu
depurð og sæla saman líf mitt vefðu

Eftir rigningu kemur regnbogi’ á himni
rísa mun sólin upp svo vætu linni
Eirðarleysi allt mun enda taka
úr alls kyns hráefnum verður gómsæt kaka.
 
Ingunn Huld Sævarsdóttir
1983 - ...
Úr ljóðabókinni Hungr míns hjarta, Reykjavík, 2005


Ljóð eftir Ingunni Huld Sævarsdóttur

Skin og skúrir
Haust
Besta jólagjöfin
Út í loftið
Veröld vorsins
Ræktin
Að taka við
Snjókorn falla
Má ég bjóða þér í te?
Með sumar í hjarta
,,Í kvöld...
Á óvart