Oubliette
Allt er hér flekklaust myrkur
og þó: þarna hátt uppi er kringlóttur flötur,
flötur ljóss. Það er heimurinn.
Ég einblíni á heiminn,
en ég hugsa ekki um hann.


Nei, ég hugsa um það sem er utan við flötinn.
Ég hugsa um allt hið fagra og ljóta og tryllta;
ég hugsa um allar hýdrurnar sem iða í svallveislu orma;
um seðla sem serða kaupahéðna;
um rakvélablöðin sem berast úr viðtækjunum;
um vampýrur lepjandi latte;
um ölvaða þursa;
um séra Niemöller;
um bölvaðan ættföðurinn;
um skáld sem brenndu hár kvenna sinna;
um ský í buxum;
um það sem haglabyssan sagði við höfuðið;
um konuna sem stakk mig í bakið.


Ég er hérna niðri;
ég einblíni upp.
ég einblíni á flötinn,
ég einblíni á heiminn,
og ég held að ég sé
byssukúla í hlaupi.
Mig langar að skjóta heiminn.
 
Kári Páll Óskarsson
1981 - ...


Ljóð eftir Kára Pál Óskarsson

Að byrja
Defetus I
Defetus II
Svelti
Tilbrigði við Niemöller
Oubliette