Í fjörunni
Hann gengur í fjörunni
og virðir steinana vandlega fyrir sér
svo hann hafi frá einhverju að segja
í kvöld.

Hann tekur þá upp einn af öðrum
og hitar í lófanum,
kemur síðan auga á höfuð í sandinum.

Þetta er höfuð af lítilli stúlku
sem starir í fjarskann
grænum augum,
svo hvít og kyrrlát á svipinn.

Dreymir hana ketti?
Dreymir hana hunda?

Hann sest hjá henni
og raðar steinum í kring,
býr til stóran hring
utan um þau bæði.

„Þú getur lokað augunum núna,
ég skal vaka yfir þér,“ segir hann.

Horfir svo til sjávar
og dregur djúpt andann,
vonar að seint muni flæða að.
 
Þórdís Björnsdóttir
1978 - ...
Úr ljóðabókinni Í felum bakvið gluggatjöldin (2007)


Ljóð eftir Þórdísi Björnsdóttur

Saman
Súkkulaðikakan
Pappírshjörtu
2.
Draumurinn
Sjálfsmorð
Manstu
Á grein
Í þögn
Mynd
Skuggi á vegg
Í fjörunni
Við árbakkann
Tré
Læstar dyr
Bakvið hurð
Eins og hann