Tré
Hann er hávaxinn og tignarlegur
eins og tré
með rætur sem teygja sig
dýpra og dýpra með ári hverju.

Greinarnar eru langar og laufin græn,

en það sem hann þráir mest af öllu
er spörfugl
sem flögrar milli greina,
og dálítil gola sem bærir laufin
svo lítillega
að hreyfingin greinist varla
nema undir vökulu auga,
gæti nánast verið ímyndun
en er samt til staðar.

Og þegar kvöldið kemur
skal ég vera fuglinn þinn
sem flögrar milli greina,
ber vængjunum til og frá
og hvíslar í eyra þitt:
„Er þetta nægilegur blástur, ástin mín?“

Svo ber ég þeim enn fastar
af öllum mætti
og hvísla aftur eftir nokkra stund:
„Er þetta nægilegur blástur, ástin mín?“

En ekkert svar heyrist,
ekkert nema örlítill niður í ánni
sem rennur eftir dalnum í fjarska
og þú hefur aldrei augum litið
en heyrt ótal frásagnir af
sem hvíslaðar eru í eyra þitt
á mildum sumarnóttum
þegar áin rennur jafnvel
ennþá hljóðlegar en nú.
 
Þórdís Björnsdóttir
1978 - ...
Úr ljóðabókinni Í felum bakvið gluggatjöldin (2007)


Ljóð eftir Þórdísi Björnsdóttur

Saman
Súkkulaðikakan
Pappírshjörtu
2.
Draumurinn
Sjálfsmorð
Manstu
Á grein
Í þögn
Mynd
Skuggi á vegg
Í fjörunni
Við árbakkann
Tré
Læstar dyr
Bakvið hurð
Eins og hann