Við árbakkann
Þú hvarfst á brott í morgunsárið
jafn snögglega og regnvatnið
gufar upp í sumarhitanum,

og ég sé þig ennþá fyrir mér
svífa burt
eins og sólina,
burt eins og guð.

Nóttina áður dreymdi mig
að ég væri með augu fuglsins
sem flaug yfir ána,

og nú geng ég eftir bakkanum
í leit að stað til að hvílast
undir fallegu tré
og bíða.

Ég færði þér svefn minn
en þú litaðir hann rauðan
meðan stór skuggi
myndaðist með rætur
sem uxu sífellt nær hjarta okkar
þar sem við stóðum
og horfðum á vegina mætast.

Síðan skildust leiðir.

Ég horfði á þig fjarlægjast
og langaði að hrópa á hjálp
en var of feimin.

Og nú bíð ég þess eins
að þú komir aftur
og fljótir niður ána
sem alltaf rann á milli okkar;

ég mun bíða við bakkann
uns hausta tekur,

ég mun bíða þín þar
uns fyrstu droparnir falla.
 
Þórdís Björnsdóttir
1978 - ...
Úr ljóðabókinni Í felum bakvið gluggatjöldin (2007)


Ljóð eftir Þórdísi Björnsdóttur

Saman
Súkkulaðikakan
Pappírshjörtu
2.
Draumurinn
Sjálfsmorð
Manstu
Á grein
Í þögn
Mynd
Skuggi á vegg
Í fjörunni
Við árbakkann
Tré
Læstar dyr
Bakvið hurð
Eins og hann