Vonandi
Ég sat og starði á uppáhaldspunktinn minn í loftinu á skrifstofunni minni þegar brjálaður rómantíker æddi inn. Hann var rjóður í kinnum og ljómaði allur. Roðinn stakk í stúf við stíliseringuna á kalkhvítu veggjunum og bleiku skyrtunni minni. Ég höndlaði þetta ekki og sagði honum að drulla sér út. Hann brosti bara breiðar, æddi að mér og kyssti mig á ennið. Hann angaði af baldursbrám. Hvílíkur endemis viðbjóður! Í hrópandi andstöðu við Armani-ilmvatnið mitt! Hann var klæddur í einhvers konar rókókó-föt, eða hvað sem þetta kallast. Rómantíkerinn dró upp snjáðan pappír og las hástöfum:

Andi vonar okkur skekur,
augu hans sem bál.
Við hrópum, því hans tunga tekur
taum af okkar sál.

Þraukum! Vonar syngjum sálma.
En söngur berst til hvers?
Til lækja, engja og ægishjálma.
Óður viskuhers!

Ég henti honum út um gluggann,
í gegnum rúðuna og út í rigninguna.
Vonandi
þarf ég aldrei aftur að hitta rómantíker.
Vonandi.  
Emil Hjörvar Petersen
1984 - ...
Gárungagap (Nykur, 2007). Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Emil Hjörvar Petersen

Vonandi
Minningarfasti I
Gárungagap
Tilveran
Borg
Almúgi / Valmúgi
Huli jing
Þorpið þagnar