Jesper Glad, leigubílstjóri
Jesper Glad keyrir leigubíl
það er hann ánægður með

Þegar Jesper Glad er ekki að keyra leigubíl
þá og þá stundina
situr hann gjarnan inni
á umferðarmiðstöðinni
og drekkur kaffi

Þar borðar hann líka á kvöldin
þegar hann er búinn
að keyra leigubíl þann daginn

Jesper Glad býr einn

Jesper Glad hlakkar til
að prufa nýja hreinsilöginn
frá Vanish
til að þrífa með æluna
og blóðið í áklæðinu sínu
af því að skurepulverinn
sem hann notaði síðast
tærði og át upp gamla áklæðið
svo hann varð að fá sér nýtt áklæði

Stundum hugsar Jesper Glad um guð
og hvort guð búi ekki í öllu
meiraðsegja ælunni í áklæðinu
áklæðinu sjálfu jafnvel
og farþegunum
sem ekki eru allir jafn kurteisir
og eiga stundum til að æla
í áklæðið

Það var þó öðruvísi í gamla daga
þegar fólk bar virðingu
fyrir leigubílstjórum

Þetta hugsar Jesper Glad um
þegar hann situr inni á umferðarmiðstöðinni
og drekkur kaffi og hlakkar til
að prufa nýja hreinsilöginn
frá Vanish

Að það sé víst ekki allt
sem það áður var
að keyra leigubíl  
Arngrímur Vídalín
1984 - ...
úr bókinni Úr skilvindu drauma (Nýhil 2009)


Ljóð eftir Arngrím Vídalín

Draumur um veruleika
Póstkort í Vesturbæinn
Haustkoma
Tristran og Ísold
Lestargluggi á ferð
Hugurinn ber þig
Jesper Glad, leigubílstjóri
Gíraffinn er á stultum - fyrir Hjálmar Skorrason Linnet