Rakki
Sá er nú meir en trúr og tryggur
með trýnið svart og augun blá,
fram á sínar lappir liggur
líki bóndans hjá.

Hvorki vott né þurrt hann þiggur,
þungt er í skapi, vot er brá,
en fram á sínar lappir liggur
líki bóndans hjá.

Ef nokkur líkið snertir, styggur
stinna sýnir hann jaxla þá,
og fram á sínar lappir liggur
líki bóndans hjá.

Til dauðans er hann dapur og hryggur,
dregst ei burt frá köldum ná,
og hungurmorða loks hann liggur
líki bóndans hjá.  
Grímur Thomsen
1820 - 1896
Páll Valsson segir í Íslenskri bókmenntasögu frá árinu 1996: ,,Í kvæðunum víkur hann (Grímur) stundum að því að hann taki dýrin fram yfir mennina og eru lýsingar hans á málleysingjum oft ákaflega fallegar og beinlínis hjartnæmar....? Íslensk Bókmenntasaga III bls. 357


Ljóð eftir Grím Thomsen

Ólund
Þrír viðskilnaðir
Huldur
Á Glæsivöllum
Rakki
Vörður
Arnljótur gellini
Á sprengisandi
Skúlaskeið
Ólag
Landslag
Á fætur
Heift
Sólskin
Átrúnaður Helga magra
Bergþóra
Álfadans