Nýir tímar
Okkar kynslóð var hugumstór hugsjónakynslóð, hjartahrein, alvarleg, ölvuð af fullvissu og greip á lofti fljúgandi fiðrildi meðan lítil dugga sigldi inn sundin. Seinna breyttist allt og sumir tóku upp á því að borða baunir og grjón; einhverjir riðu um á reiðhjólum, geymdu bækur í bakpokum, berfættir í sandölum, brostu umburðalyndir og fullir samúðar með seinþroska ofsamönnum sem ennþá fálmuðu með kamelgulum fingrunum í leit að nýjum hljóm við gömlu stefin og höfðu ekki áhyggjur af hægðunum.
Þó málmhríðarbyljirnir lemji sjónvarpsgluggana öll kvöld, þó grátur barnanna flysji heilabörkinn utan af samviskunni og flóttamennirnir striplist í eyðimörkinni milli þess sem þeir frjósa á fjöllum uppi, - þá mun það vera vandi, mikill vandi að vera Íslendingur.
Rykið smýgur í nefið, svíður í nefið þar sem ég stend hér í búðinni og blaða í gömlum bókum. Fiðrildin rekin á hol, pinnuð niður með prjónum lífvana í kassa undir gleri innan um brúna koparaurana og gömul blöð. Flaska full með duggu uppá skáp. Í leit að gömlum rímum rek ég augun í kunnuglega kili. Þarna stendur hún steigurlát og storkandi torræð, bókin eftir þýska ungverjann sem þú lést hafa lesið. Við fætur mér híma ljóðin þín hnípin og verðlögð á neðstu fjölinni.

 
Pétur Tyrfingsson
1953 - ...
Ég fór stundum í fornbókaverslanir og bótaníseraði þar í bókum mér til hugarhægðar; sennilega sett saman 1995 frekar en 6 -- á þeim tíma skelfilega þreyttur á öllu þessu fólki sem getur ekki játað að það hafi skipt um skoðun og heldur því fram að heimurinn hafi breyst frá því við vorum ung.


Ljóð eftir Pétur Tyrfingsson

Blús
Dauðaþögn
Út um stofugluggann
Flóabardagi
Miðaldra
Nýir tímar
Vísa
Þegar náttar
Heimaverkefni