Ekki er allt sem sýnist
Krýndur situr öðlingur konungsstóli á,
knéfallandi þegna lítur hann sér hjá;
vilji hans er almáttkur, orð hans lagaboð;
aldrei beygir sorgin slíkt hamingjugoð.

Enginn skilur hjartað! Nær hauður byrgði húm,
hátta sá ég gylfa í konunglegt rúm;
með hryggðarsvip hann mændi auða sali á,
af augum hnigu társtraumar. Hver skildi þá?

Í aurasafni miklu ég auðkýfing sá,
á ævileið hans hamingjan gulli nam strá;
sorgin þeim gullmúr ei unnið fær á,
er umhverfis sig hleður mæringur sá.


Enginn skilur hjartað, því auðugan hal
áðan sá ég reika í gullskrýddum sal;
féllu tár af augum á fépyngjur títt;
fölvan svip og harmþrunginn hver getur þýtt?

Í björtum æskublóma blíða mey ég leit,
brosti rós á vöngum, en sálin var svo heit,
yngismanna vonandi augu störðu´á snót;
aldrei nagar sorgin svo blómlega rót.

Enginn skilur hjartað, því unga sá ég mey
um engið græna reika í hægum sumarþey
gleðisnauða, einmana, grátna með brá;
geislar stóðu´af tárunum. Hver skildi þá?

Blíða´ og unga móður í barnahóp ég sá,
blíða, ást og von skinu augunum frá;
móðurhjartans ástarmagn engin bugar neyð,
aldrei verður nornin svo fögru blómi reið.

Enginn skilur hjartað, því yngsta soninn sinn
hún áðan lagði´ í vöggu með rósfagra kinn;
hún andvarpaði sáran og alvald hjálpar bað,
af augum sá ég tár hníga. Hver skildi það?

Glaður situr unglingur góðvinum hjá,
glóir vín á skálum, en yndi á brá;
aldrei sigrar harmurinn vináttu´ og vín,
vonarsól og gleði þar ómyrkvuð skín.

Enginn skilur hjartað, því höfðinu hann
halla döpru áðan að legubekknum vann,
og svipinn hans hinn bjarta sorgar huldi ský
sem sólu byrgði hreggflóki. Hver skildi´ í því?

Allstaðar er harmur og alstaðar er böl,
alstaðar er söknuður, táraföll og kvöl;
skilið eigi hjartað vor skammsýni fær,
né skyggnst inn í það hulda, sem nokkuð er fjær.

Veröldin er leikvöllur heimsku og harms,
er hryggðarstunur bergmálar syrgjandi barms.
Lífið allt er blóðrás og logandi und,
sem læknast ekki fyrr en á aldurtilastund.

 
Kristján Jónsson
1842 - 1869
Ljóðið ,,Ekki er allt sem sýnist" mun Kristján hafa ort árið 1868 í Reykjavík, skömmu áður en hann hætti námi og hélt austur til Vopnafjarðar þar sem hann lést ári síðar. Margir telja þetta með bestu ljóðum Kristjáns og Jón Ólafsson sem fyrstur manna gaf út ljóðasafn Kristjáns vildi að síðustu línurnar yrðu settar á legstein hans öðrum megin, því þær endurspegluðu viðhorf hans til lífsins öðrum þræði.


Ljóð eftir Kristján Jónsson

Vonin
Gröfin
Ekki er allt sem sýnist
Dettifoss
Staka
Kveðið á Sandi
Haust
Tárið
Þorraþræll
Delerium tremens eða: Veritas in vino.