Laugardagskvöld við Strandgötuna
Útsýnið yfir pollinn
er ægifagurt í kvöld
þar baðar sig blindfullur máninn
með blikandi stjarnafjöld
og ljósin við götuna lýsa
í lognværum bæjarins óm
á dömu á háum hælum
og herra á burstuðum skóm

Þau slompuð um götuna slangra
slefandi í glösin sín
syngjandi drykkjusöngva
"já, sjómennskan er ekkert grín"
að húsinu mínu þau hallast
og hávaðinn stöugt vex
á endanum eru þau komin
í alvarlegt hjónapex

Er heillaður á þetta horfi
í huganum lofa ég
hve gatan sú arna er orðin
asskoti menningarleg
og góðar eru þær gjafir
sem gefur mér bærinn minn
er peyjar á pöbbarölti
pissa í garðinn inn

------

Ég veit, er ég vakna á morgun
og vappa úr garðinum út
þar æla á götunni grúfir
við glampandi flöskustút
hlandið á stéttinni stiknar
sterkjan er ilmandi hrein
og dauðhreinsað dömubindi
damlar við rennustein

Þar litlu börnin sér leika
í leifunum frá í gær
gullin sem nóttin gaf þeim
gleðja sem endranær
og mávar í krásirnar kroppa
krummi er eitthvað að spá
hann gráðugur fær sér í gogginn
ef gefst honum færi á

túristinn festir á filmu
hið fagra umhverfi mitt
norðlenskum mannlífsmyndum
svo mokar í albúmið sitt
hann færir í bókina feitu
fróðleik um Íslandsdvöl
hlandpolla, glerbrot og gubbur,
Goðapylsur og öl

--------

með útsýni yfir pollinn
ég andvaka bylti mér
ég elska þig gatan mín góða
og glauminn sem fylgir þér
ég veit þitt háleita hlutverk
við heiminum öllum skín
sem bæjarins besti kamar
blessuð Strandgatan mín  
Hannes Sigurðsson
1960 - ...


Ljóð eftir Hannes Sigurðsson

Laugardagskvöld við Strandgötuna
að hrökkva eða stökkva
Tindátar
Á páskaföstu í Eyjafirði.
Íslenska vorið
Efst á Baugi
Rím.
Fjallalækur
tungl í fyllingu