Efst á Baugi
( eftir að forseti neitaði að staðfesta fjölmilðlafrumvarpslögin. )

Fagna nú feðgar glaðir
forsetans undir sól.
Brátt munu Bessastaðir
Baugsmanna verða skjól.
Er Norðurljósin ljóma
lofgjörð ég syng og prís.
Oss vakti´af Davíðs-dróma
dýrðlegur Óli grís.

Það dýra Baugs-handbendi
blíðlega upphóf raust.
Þjóðinni sælu sendi
sitt umboð tafarlaust.
Fjölmiðlafrumvarps-bleðli
farga i snatri má.
Skrattar með skítlegt eðli
skulu það fá að sjá.

( en átti einhver von á að þjóðin fengi að segja sitt álit.?? )

Skammgóðan vermi veitti
vonar hin nýja sól.
Ríkis-því stórlynd steytti
-stjórnin sín brellutól.
Á snöggu augabragði
eitraðan hrærði graut.
Fróman svo fyrir lagði
forsetann galdraþraut.

( snilldarbrella stjórnarinnar var alveg skotheld. - nú skyldu sumir fá að éta ofan í sig stóru orðin.... )

Armur skal undan láta
Ólafur Ragnar nú,
ellegar eigin játa
ógilda sína trú.
Stjórnin hún óttast eigi
óhlýðinn púpulinn.
Davíðs á dýrðar vegi
drottna skal enn um sinn.

( ....eða þannig sko. - Allavega: Það er til nóg í pokahorninu hjá brellu-meisturunum, allavega eitthvað betra en lygin sem lögfræðingarnir Bessi og Baugur eru að reyna að heilaþvo almenning með. )

Þjóð mín, ei þarft að kvíða
þörf hverri hér er mætt.
Skín oss nú ljósið lýða
lausnari af Davíðs ætt.
Verndari láðs og lagar
ljóminn af nýrri sól,
fætur er fúna nagar
forsetans undan stól.

 
Hannes Sigurðsson
1960 - ...


Ljóð eftir Hannes Sigurðsson

Laugardagskvöld við Strandgötuna
að hrökkva eða stökkva
Tindátar
Á páskaföstu í Eyjafirði.
Íslenska vorið
Efst á Baugi
Rím.
Fjallalækur
tungl í fyllingu