Fyrir utan glugga vinar míns
Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum,
bláhvítur snjór við vota steina sefur,
draumsilki rakið dimma nóttin hefur
deginum fegra upp úr silfurskrínum.

Vökunnar logi er enn í augum mínum,
órói dagsins bleika spurning grefur
djúpt í mitt hjarta, er kemur seinna og krefur
kyrrðina um svar, um lausn á gátum sínum.

Vinur, þú sefur einn við opinn glugga,
æskunnar brunn í svefnsins gylltu festi
sígur þú í og safnar fullum höndum.

Hugur minn man þinn háa pálmaskugga,
hafi ég komið líkur þreyttum gesti
utan frá lífsins eyðihvítu söndum.
 
Jóhann Sigurjónsson
1880 - 1919


Ljóð eftir Jóhann Sigurjónsson

Ég sótti upp til fjallanna
Tárið
Jónas Hallgrímsson
Væri ég aðeins einn af þessum fáu
Fyrir utan glugga vinar míns
Heimþrá
Haustfífillinn
Viltu fá minn vin að sjá?
Sofðu, unga ástin mín
Bikarinn
Sorg