Einmitt nákvæmlega akkúrat svona með fyrirvara um nauðsynlegar breytingar á hegðun atferli og framkomu
trúa
bitra vini mínum
sem segir að ástin sé mýta?

byggja
upp samsæriskenningu
um kalla sem sömdu ástina
fyrir þúsundum ára
spunnu hana upp frá rótum
til að halda fólkinu góðu
svona eins og paradís
(aflátsbréfin og allt það)?

nei

get ekki annað
en horfst í augu við
ástina sem skekur líkama minn
og er hreinlega áþreifanleg
og lyktina af þér
sem er eins og vímugjafi
og þig
sem ert svo fáránlega fallegur
þar sem þú liggur við hliðina á mér
í svarta hárinu og bláu augunum
og sefur

kemst ekki hjá því
að vita
að ég er væmin í maganum
vegna þess
að ég veit að þú ert til

þú
ein stór feit gangandi viðvörunarbjalla
sem ég sniðgekk

og fjarlægist sífellt punktinn
þar sem ég gat auðveldlega snúið við

og bjallan glymur ennþá og bergmálar í höfðinu
en það er erfittóþægilegtasnalegt
að éta ofan í sig
að segja fólkinu
að það hafi haft rétt fyrir sér
<i>of gömul til að slíta mig lausa og hlaupa</i>

og hver segir að það sé rétt að flýja vandamálin
í stað þess að takast á við þau
hver segir að ég eigi ekki
að taka í höndina á þér
og segja við gerum þetta saman af því
að ég elska þig
elska þig allan
með uppsveiflum og niðursveiflum
með oftúlkunum og ranghugmyndum
með áfengissýki og röddunum í höfðinu
með lokkinn úr hárinu mínu í vasanum

elska þig án þess að vita nákvæmlega hvers
vegna með öllu akkúrat svona eins og þú ert núna
á þessari sekúndu mínútu þessum degi þessu ári
með geðveikina grasserandi í hausnum
og flæðandi út um öll vit
og þess vegna gerum við þetta saman
ég og þú

því ég vil það
ég og þú
í sama rúminu
sama tómarúminu

ef þú bara syngur stundum fyrir mig og
gerir stundum eins og ég segi

við getum þetta og samt veit ég að ég
veit ekki
hvort við getum þetta
veit ekki hvernig
við getum þetta
veit bara að mér finnst ég ekki hafa neitt
annað en höndina þína
læsta um mína
og ég held að ég gæti orðið

hamingjusöm
með þér

ef þú bara

kannski

og

stundum
 
Hildur Lilliendahl
1981 - ...
Handa Lykla-Pétri


Ljóð eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur

Um auðtrú hins nakta karlmanns
Óreiða
afi
Vonbrigðin þín
óljóð
Konan sem vorkenndi mér
Litað gler
Ferð eftir malbiki
Opið bréf til barna Íslands
Einmitt nákvæmlega akkúrat svona með fyrirvara um nauðsynlegar breytingar á hegðun atferli og framkomu
U-beygja
Skammtímamarkmið?
ljóð handa manni með þýskt eftirnafn og konu sem yrkir fiðrildaljóð