Manstu?
Manstu þegar við vorum lítil...

Manstu þegar við fundum holuna sem
randaflugur komu uppúr?
Við þorðum ekki að taka netið
burt sem við settum yfir því
þær ætluðu að ráðast á okkur.

Manstu þegar við lékum okkur að kyssast
við hliðina á Grímsagirðingu?
Okkur varð illt í maganum af
hlátri eftirá.

Manstu þegar við brutum fjölina yfir
gamla brunninum?
Við töldum okkur trú um að
einhver hafði dottið niður fyrir
löngu og það væri lík þarna.

Manstu þegar við pissuðum á plastdúk
og sögðum mömmu að þetta væri
epladjús?
Ég man eftir dúknum en ég man
ekki eftir viðbrögðum mömmu.

Manstu þegar við stálum blysi úr
flugeldabunkanum?
Við kveiktum í því niðri í fjöru
og það var svo flott að sjá lita
kúlurnar deyja í sjónum...
En það var sárt að vera
rassskelltur þrisvar eftirá.

Manstu þegar rotþróin sprakk?
Við misskildum fullorðna fólkið
og héldum að Jón Páll hefði
sprungið þarna oní. Grasið var
líks svo grænt undir skítnum.

Manstu þegar við hlóðum upp öllu sem
við fundum til þess að komast
upp á háaloft?
Þegar við lyftum upp hleranum
var svo dimmt og svo mikið af
kóngulóarvefjum að við þorðum
ekki upp. Það var líka gat á
þakinu.

Manstu þegar við bjuggum til göng úr
teppum og stólum í stofunni?
Fíni vasinn sem við notuðum sem
festingu datt niður á gólf og
brotnaði.

Manstu þegar við tjölduðum út á túni og
sváfum úti um nóttina?
Við vöknuðum eldsnemma og sáum
dalalæðu. Við reyndum að komast
inn í hvítu þokuna en hún
færðist alltaf í burtu.

Ég man eftir þessu öllu.
Líka öllu hinu sem gerðist.
Sú staðreynd er
sem rífur í sorgartaugarnar mínar

er

að þú gerir það ekki.  
Diddú
1988 - ...


Ljóð eftir Diddú

Ljóð eru vond
Ég gleymi aldrei fyrstu ástinni
Megi þú aldrei gleyma
Allri halda að lífið sé lítið mál
Lygar og svik
Hefnd og biturð
Þetta líf
Bið
Ádeila
Heimurinn versnandi fer
Að vera í takt
Að vinna heiminn
Manstu?