Um þig - til þín
1

Þú fórst á fimmtudegi, kortér yfir tvö. Það brakaði undan fótum þínum á nýföllnum snjónum. Það sindraði á mjöllina í skini götuljósanna. Ég sat fyrir innan, í litlu risíbúðinni minni, bak við kalt glerið og horfði á þig fjarlægjast, í átt að Fríkirkjuveginum, yfir Hljómskálagarðinn. Kertið var slokknað í glugganum, svo þú sást mig eflaust ekki þegar þú snérir þér við, en ég horfði á þig, með söknuði. Sætur ilmurinn af reykelsinu sem þú gafst mér fyllt vit mín og ég hugsaði um allt sem þú hafðir sagt mér, gert fyrir mig og stundir okkar saman. En aðallega um þetta kvöld og allt sem hafði gerst. Hjarta mitt fylltist af gleði og hamingju.

Ekki vildir þú taka bílinn, því þú hafðir drukkið fyrr um kvöldið, hvað þá leigubíl, því það hefði kostað þig heilan þúsundkall. Heldur vildir þú ganga heim, því veðrið var svo gott. Baðst mig um að vera ekki með þessar áhyggjur, sagðir mér að það væri ekkert að, heldur væri það bara í hausnum á mér. Hvað gat ég annað en trúað því; ég trúði öllu sem þú sagðir mér. Það er ekkert sem breytir því – ekkert. Aldrei hafði ég fundið fyrir slíkri ást, slíkri hamingju, sem nú. Lífið brosti við okkur.


2

Við hittumst á föstudagskvöldi, fyrir utan Nasa. Þú varst sá fallegasti karlmaður sem ég hafði nokkru sinni séð. Ljósbrúnn frakkinn fór vel við kastaníubrúnt hárið, sem var greitt aftur en skipt í miðju. Það brá fyrir brosi sem fékk mig til að kikna í hnjáliðunum, sem hafði þá ekki gerst í mjög langan tíma. Mig langaði að hlaupa til þín, kasta örmum mínum um háls þinn og gefast algerlega á þitt vald, en mér tókst að halda aftur að mér; ég skil ekki hvernig. Ég óskaði þess að þú myndir enda með mér, en tíminn einn gat sagt til um það.

Þú horfðir á mig, eflaust beint í gegnum mig, ég fann eitthvað kvikna innra með mér. Dagdraumar sóttu á huga minn.

Síðar um kvöldið þú bauðst mér í glas, besta hvítvín sem til var í húsinu. Bauðst mér upp í dans, við skemmtum okkur vel; langt síðan ég hafði átt svo góða og ánægjulega kvöldstund. Seinna fannst þér hávaðinn of mikill, bauðst mér að koma heim með þér, sem ég þáði með þökkum, hjarta mitt barðist í brjósti mér.

Ég skil það ekki enn hversu mikill herramaður þú varst. Við lágum saman fyrir framan arininn, í stofunni í stóru íbúðinni þinni þar sem allt var til alls. Við töluðum um vonir, þrár og drauma, drukkum rauðvín og reyktum vafninga. Þú sagðir svo margt, ég hlustaði á hvert orð, drakk í mig, naut hljómfagrar raddar þinnar. Sökkti mér í draumaveröld þar sem við vorum það eina sem til var, nutumst án hamla, án ótta, án veruleika. Allt erfiði hvarf við orð þín, heimurinn varð að leiksvæði, vandamálin að skemmtun. Þú fylltir sál mína gleði, hjarta mitt hamingju, hugur minn varð drukkinn af orðum þínum.

Við sofnuðum saman í stóra rúminu þínu, án þess að fjarlægja föt okkar. Áður en ég sofnaði, horfði ég á þig, naut þeirrar fegurðar sem ég sá, lét hugann reika uns ég féll í svefn, inni í draumalandið.

Þú vaktir mig með rjúkandi kaffi og heitum rúnstykkjum. Ég fór heim eftir yndislegan morgunverð sem þú náðir í út í bakarí. Morgunmatur í rúmið; herramaður fram í fingurgóma. Þú baðst mig um símanúmerið mitt, en ég efaðist um að þú myndir nokkru sinni hringja. Ekki eftir nótt sem þessa, þar sem orð voru meiri en gjörðir.

Þú kysstir mig bless - á kinnina. Ég óskaði annars; finna heitar varir þínar þrýstast upp að mínum, finna hönd þína snerta háls minn, strjúka bak mitt; halda utan um mig. Ég roðnaði, leit undan, en þú straukst um vanga mér og kvaddir. Ég gekk heim með fiðring í maga, hjartað fullt vonar, fótatak mitt létt og fjaðrandi.


3

Þú hringdir, daginn eftir, mér brá því öðru átti ég von á. Bauðst mér út að borða, sem ég þáði – var annað hægt? Ég hafði eytt deginum í að taka til, hugsa um þig, láta mig dreyma. Mér datt ekki til hugar að þú myndir hringja, ekki eftir það sem ég hafði áður lent í. En herramaðurinn þú hringdir og bauðst mér út. Kannski varstu ekki eins og hinir, sem vildu allir það sama á fyrsta kvöldi.

Við fórum á Indíafélagið, fengum okkur indverskann. Yndislegur matur; enn yndislegri félagsskapur. Þú sagðir mér frá fjölskyldunni, börnum, bræðrum og hundi. Ég hlustaði á hvert orð, sagði fátt en naut þess að hlusta á þig tala. Þú spurðir mig og ég reyndi að svara, en eflaust hef ég sagt eitthvað fáránlegt, því þú hlóst að mér þegar ég sagði þér frá Bellu systir. Mér sárnaði pínulítið, en það hvarf þegar ég sá þig hlægja, svo ynnilega, svo fallega. Þú settir hendina fyrir munnin þegar þú hlóst, faldir fallegar tennur þínar. Smá hrukkur birtust við augun sem gerði þig enn fallegri; myndarlegri. Hjarta mitt þráði þig; líkami minn titraði.

Það var fallegt kvöld. Við gengum niður kalda Hverfisgötuna eftir þessa yndislegu máltíð sem þú bauðst upp á. Ég sagði þér frá því helsta sem hafði gerst í lífi mínu, frá því ég var þrettán. Þú tókst í hönd mína fyrir framan Þjóðleikhúsið, baðst mig að stoppa, settir fingur á munn mér og kysstir mig. Ég fann hvernig ég missti næstum máttinn í hnjánum, hvernig maginn snérist allur við. Mig langaði helst til að éta þig upp til agna, á tröppum leikhússins. Þú settir hönd þína aftur á hnakka mér, straukst í gegnum hár mitt og þrýstir heitum vörum þínum að mínum. Tunga þín lék sér í munni mínum og við vorum gersamlega án umhverfis. Staður og stund voru fokin úr huga mér og ég þráði það eitt að fá að njóta þín, allt til enda veraldarinnar.

Þú spurðir mig hvar ég ætti heima og ég sagði þér það. Samt langaði mig ekki að sýna þér lita risið mitt, því það var aðeins kústaskápur, miðað við íbúð þína í Nóatúninu. Ég reyndi að færast undan, en þú krafðist þess.

Við gengum suður Laufásveginn og þú hélst í hönd mína alla leið - frá Þjóðleikhúsinu og heim á Tjarnargötuna. Smá andvari kom úr norðri, yfir Tjörnina og þú sást að mér varð kalt, tókst utan um mig enn á ný og kysstir mig á miðri brúnni á Skothúsveginum. Bílarnir runnu framhjá, en okkur gat ekki verið meira sama; við áttum heiminn.

Ég opnaði dyrnar og vonaðist til að þú skiptir um skoðun og við færum heim til þín, en mér varð ekki að ósk minni. Þú eltir mig upp þröngan stigann, þögull. Ég ætlaði ekki að geta opnað dyrnar, því ég fylltist skömm á aðstæðum mínum; skömm fyrir að geta ekki boðið þér betri umgjörð; eitthvað sem færi þér betur. Þú brostir til mín svo fallega, þegar ég snéri mér við og horfðir á mig með þessum yndislegu brúnu augum. Ég gat ekki annað en kysst þig á stigapallinum.

Atlot þín voru sem himnasending. Aldrei fyrr hafði ég kynnst svo mjúkum og æfðum höndum, né sýnd slík virðing, svo mikil ást af nokkrum þeim er ég áður hef sofið hjá. Þú vissir nákvæmlega hvað átti að gera, hvar átti að strjúka, hvernig þú áttir að athafna þig. Líkami minn titraði undan fingrum þínum. Aldrei fyrr hafði ég notið slíkra atlota.

Það lá rós á koddanum þegar ég vaknaði og miði þar við hliðina. Þú hafðir þurft að fara, vonaðist til að ég fyrirgæfi þér, sem ég gerði samstundis.

Ég lá í rúminu fram yfir miðdag, lét hugann reika um þig og atlot næturinnar. Kallaði fram í huga mér andlit þitt og þinn fagra líkama, sem var stæltur mjög. Hugsaði til þín með söknuði, með þrá og löngun í að fá að njóta þín á ný. Nú varð ég að bíða í angist þangað til ég heyrði aftur í þér, því mér hafði ljáðst að fá símanúmerið þitt. Myndir þú hringja aftur? Hafði ég staðið mig nægilega vel? Var ástæða bortthvarfs þíns önnur en sú sem þú gafst upp? Hugur minn varð sjúkur að hugsa um þig; þrá mín varð sterkari með hverjum andardrættinum.


4

Þú hringdir um kvöldið, baðst mig afsökunar á því að hafa horfði, svo snögglega og án þess að kveðja. Lofaðir mér því að þetta myndi aldrei gerast aftur, ef ég vildi hitta þig á ný. Ég bauð þér að koma og horfa á sjónvarpið, við gætum leigt mynd, fengið okkur popp og kók. Þú sagðist vera á leiðinni, ætlaðir að kaupa poppið og gosið, en ég yrði að sjá um myndina, bara eitthvað skemmtilegt.

Ég leigði You’ve Got Mail og þú brostir. Þú sagðist vera Meg Ryan ‘fan’ og þakkaðir mér fyrir valið. Baðst mig að sitja við hlið þér í sófanum, hélst utan um mig og ég fann að það var eitthvað meira að gerast en hjá Tom Hanks og Meg Ryan; ég fann fyrir einhverju sem gat bara verið gott.

Þegar myndin var búin kysstir þú mig, við nutumst í sófanum en enduðum upp í rúmi. Þar lágum við og töluðum, nutumst á ný og sofnuðum. Þú hélst utan um mig, ég þrýsti þér fast upp að mér.

Kannski ég hafi haldið þér of fast því þú vaktir mig snemma um morguninn, sagðir mér að þú þyrftir að fara til vinnu, kysstir mig og tókst við að klæða þig. Sagðist ætla að hringja í hádeginu, jafnvel að bjóða mér eitthvað út að borða. Ég sagði þér að ég finndi eitthvað, en sá eftir því um leið og ég sleppti orðinu. Þú brostir til mín, þínu fallega brosi og sagðir að það væri í lagi, það væri gagnkvæmt. Ég fann tár myndast í hvörmum mínum, þurrkaði það nett með handarbakinu og strauk þér svo um vangann. Þú tókst í hönd mína og kysstir í lófa mér. Svo kysstir þú mig bless og stóðst upp, snérir þér við í dyragættinni og sagðir mér að þessi íbúð væri miklu heimilislegri en þín, en ég trúði þér ekki; ég hafði verið heima hjá þér og vissi hve þú varst mikill smekkmaður. Þú kvaddir og fórst.

Ég lá í rúminu án þín, horfði upp í loftið og lét hugann reika á ný. Hönd mín strauk tómt rúmið, þar sem þú hafðir áður legið. Söknuður sótti að, ég vildi þú værir við hlið mér. Ég hugsaði um þann tíma sem við höfðum átt saman, um þann tíma sem við ættum eftir að eyða saman, hvað myndi gerast, hvað gæti gerst. Hjarta mitt barðist um í brjósti mínu fyrir þig, til þín. Hvað varst þú að gera, hvert fórstu þegar þú hvarfst frá mér?


5

Dagar urðu að mánuðum, við kynnstumst betur. Ást okkar dýpkaði, böndin styrktust, sálir okkar tóku að vaxa saman. Hjörtun slógu í takt, rómantíkin heillaði; þú varst meira en ég hafði nokkru sinni gert mér í hugarlund; ástríkur, glaður, fullur af hlýju og góðmennsku.

Börn þín tóku mér vel, litu á mig sem hluta af þér, þannig varð ég partur af fjölskyldu; eitthvað sem mig hafði lengi dreymt en aldrei gert mér vonir um. Þú þrýstir á að ég flytti til þín, en ég þráaðist við. Ótti var minn óvinur, fyrri sorgir sóttu að. Það eina sem þú gerðir var að brosa þínu fallega brosi og kyssa mig. Öðrum eins skilningi hafði ég aldrei kynnst, né þvílíkri þolinmæði. Að finna slíkt er fjársjóður og ég hafði átt því láni að fagna ramba á hann fyrir utan Nasa, kvöld eitt í janúar. Líf mitt hafði breyst frá því ég sá þig fyrst, hafði tilgang; fyllingu.

Vorið kom og ástin blómstraði enn. Þú hafði kynnt mig fyrir allri fjölskyldunni, meira að segja þinni fyrrverandi, sem tók mér með kostum og kynjum. Allt var að ganga upp, hvernig sem það er skoðað.

Fyrsta sumar okkar var sem draumur, haustið sem fagurt ljóð. Jólin fengu þann hátíðarljóma sem ég hafði aldrei kynnst. Þú varst mér allt.

Annað eins sumar hafði ég ekki upplifað. Nærvera þín dró allt það besta fram í fari mínu, ég fór að brosa, hlægja og njóta lífsins á ný. Við fórum ófáar ferðirnar í sumarhús foreldra þinna, með og án barna þinna. Skemmtum okkur ætíð vel, nutum samvistanna, frelsisins og nærverunnar.


6

Á nýju ári sagði ég þér frá ákvörðun minni, eitthvað sem þú hafðir eflaust beðið eftir með eftirvæntingu. Við ætluðum að fara að búa saman, ég, þú, börnin þín tvö og hundurinn. Við yrðum fjölskylda; eining sem væri partur af stærri heild. Þú sagðir mér hve hamingjusamur þú varst, hve ánægður og glaður. Bauðst mér út að borða til að fagna ákvörðun minni.

Kampavín og rósir biðu eftir mér á Lækjarbrekku. Hjarta mitt fylltist ást, augu mín vöknuðu. Ég hafði aldrei elskað nokkurn sem þig, ég sagði þér milli forréttar og aðalréttar. Þú sagðir það sama við mig, brostir fallega til mín og tókst í hönd mína yfir borðið. Samt var einhver dulúð, eitthvað meira, sem þú vildir ekki segja mér. Ég þóttist ekki taka eftir því, en þú einn veist hve léleg mín leiklist er, hve erfitt ég á með að fela hug minn og síst frá þér.

Á eftir máltíð kom koníak og kaffi, Mozartkúlur og annað konfekt. Ég sagðist ekki mega við meiru, en þú sagðir að ég hefði aldrei verið fallegri. Þú fékkst þér vindil, sem gerðist sjaldnar nú en áður. Mig langaði í þig á þeirri stundu, en lét nægja að halda í hönd þína og halla höfðinu að öxl þinni. Þú tókst utan um mig og hélst fast um herðar mínar. Hjarta mitt var að springa af hamingju.

Kvöldið var fagurt og loftið hreint. Við gegnum um bæinn, héldumst í hendur, horfðum á húsin, bátana og störnurnar. Norðurljósin dönsuðu á himninum, kuldinn kom að norðan, en blés samt notalega. Fullt tunglið hvarf á bak við rauðhvít ský, sem komu með golunni. Eitt og eitt sjókorn féll niður á auð strætin, auðar gangstéttarnar, sem tóku að grána meir og meir.

Við Ráðhúsið þú stoppaðir mig, kysstir mig og horfðir lengi í augu mín. Andardráttur þinn varð að hvítu skýi, sem svo losnaði upp í læðing og hvarf. Ljósin lýstu upp Tjörnina í gegnum ísinn, lýsti upp snjódrífuna sem kom að ofan, hægt og nánast tignanlega, líkt og í ævintýri.

Þú sagðist elska mig, meira en lífið sjálft. Vildir ekki án mín vera. Sagðir að ákvörðun mín hefði gert þig hamingjusamari en nokkuð annað, kannski fyrir utan fæðingu barna þinna. Ég skildi það, elskaði þig samt og kyssti á móti.

Eitt var það samt, sagðir þú mér, sem þú vildir spyrja mig að. Eitthvað sem þú hafðir beðið eftir í langan tíma. Forvitni mín var mikil, en skyggði samt ekki á ástina, vonina og bjartsýnina sem hafði hreiðrað um sig í hjarta mínu. Ég spurði hvað það væri, hvort eitthvað væri að, en þú sagðir að svo væri ekki, kyngdir og hertir upp hugann. Hvað gat ég annað en beðið, með hjartslátt sem hefði nægt til að gera út af við gamla konu.

Þú stakkst hönd þinni í vasann og dróst upp flauelsklæddann kassa, lítinn og bláann. Hjarta mitt stansaði á því augnabliki og neitaði að slá meir, skreið upp í háls svo ég varð að kyngja ótt og títt. Loks tók það að slá á ný og þá hraðar en áður, svo mjög að allur líkami minn skalf. Þú hélst mér væri kalt, en ég neitaði því, sagðist aðeins finna fyrir spennu, ást og hamingju. Hvað ætlaðir þú að gera? Gat verið að rómantíkin yrði meiri en orðið var? Varstu virkilega, þarna við Tjörnina, að uppfylla síðasta drauminn?

Spurningin kom og ég kyssti þig. Svarið var auðvitað jákvætt, var við öðru að búast? Ekki væri nokkur leið að neita slíkri bón frá manni sem þér. Þú dróst hringinn á fingur mér, lítinn, nettann og sérsmíðaðann. Þú hafðir munað eftir orðum mínum og látið gera hring eftir mínum óskum, en bættir við frá eigin hjarta. Ég horfði á þig og svo á fingur mér, hjarta mitt fann fyrir fögnuði, ást og feginleika. Við kysstumst, hlógum, grétum og kysstumst á ný. Gengum svo með Tjörninni heim til mín, rólega. Nutum nærverunnar, kvöldsins og logndrífunnar.


7

Þú hraust lágt við hlið mér. Klukkan sló tólf. Ég horfði á þig sofa, hugsaði til framtíðar, fortíðar og nútíðar. Hvað hafði ég gert til að verðskulda slíkan mann. Var þetta einum of gott til að vera satt? Hönd mín strauk bringu þína varlega, svo þú gætir sofið. Fagur líkami þinn lá nakinn í rúmi mínu, þreyttur og fullnægður. Bros var enn á vörum þínum.

Ég vakti þig rúmlega eitt, því þú varðst að fara. Heima biðu börn og barnapía, sem þú varst að losa undan skildum sínum. Sagðir mér að vera hér, hvílast og njóta mín. Sagðist ætla að ganga heim, njóta kvöldsins og hugsa um mig. Ég bað þig að taka leigubíl, að minnsta kosti, en þú tókst það ekki í mál, sagðir mér að hafa ekki áhyggjur, þetta væri ekki svo langt. Ég fékk að njóta þín einusinni enn áður en þú hvarfst frá mér.

Við kvöddumst í dyragættinni, ég ætlaði ekki að láta þig fara, hélt þéttingsfast um þig, í fráhnepptum sloppnum. Þú sagðir að ég hefði fallegan líkama, ég bað þig að segja satt. Þú brostir, kysstir mig og tókst utan um mig. Sagðir mér að hafa meira sjálfstraust, það færi mér betur. Sagðist elska mig og kysstir mig á ný. Snérir þér síðan við á stigapallinum og gegst niður. Ég elti þig niður og kyssti þig aftur við útidyrnar, kvaddi og lokaði á eftir þér. Hraðaði mér upp á slitnum inniskónum.


8

Þú fórst á fimmtudegi, kortér yfir tvö. Nýfallinn snjórinn brakaði undan fótum þínum og á hann sindraði í skininu frá götuljósunum. Köld gjólan kom enn að norðan, tunglið brosti á ný á stjörnubjörum himninum. Ég sat fyrir innan, á gluggakistnunni, bak við kalt glerið, horfði á þig fjarlægjast, í átt að Fríkirkjuveginum. Andardráttur minn fraus skamma stund á rúðunni, myndaði kringlótt ský sem minnkaði smám saman uns ég blés frá mér á ný. Kertið var slokknað í glugganum, svo þú sást mig ekki þegar þú snérir þér við, en ég horfði á þig, með söknuði. Ég hélt að mér sloppnum, það kólnaði eftir að þú fórst; íbúðin varð tóm og líflaus án þín. Þú hvarfst sjónum mínum, ég fór upp í kalt rúmið.

Rúmið var tómt án þín, hjarta mitt saknaði nærveru þinnar. Samt hlakkaði ég til helgarinnar, því þá ætluðum við að flytja mitt litla dót yfir til þín, hefja okkar búskap, njóta nærverunnar sem ein heild. Svefninn sótti seint að, en kom samt að lokum. Þú varst í draumum mínum.


9

Mamma þín hringdi klukkan hálf sjö. Hún grét. Hjarta mitt fraus. Sviti spratt fram á enni mér. Maginn fór í hnút svo mig langaði að kasta upp. Eitthvað hafði gerst. Bað mig um að koma upp á sjúkrahús í hvelli - eins og skot - það væri ekki það langt eftir.

Þú lást hreifingarlaus í rúminu. Slöngurnar skyggðu á þig, stungust inn hér og þar. Tækin skríktu, vélarnar dældu, hjúkrunarkonurnar komu og fóru. Andlit þitt var líflaust, marið, kalt. Hönd þín lá hreifingarlaus með hring á fingri. Ég hélt um hana - grét. Líkami þinn lá undir hvítri sænginni, bringa þín bærðist vart. Lyftist upp einungis vegna tækja og vilja lækna.

Lítil von, var það eina sem læknirinn sagði, en ekki gefast upp, hugsaði ég. Bað í hljóði - án trúar. Óskaði að ég hefði farið með. Því fórum við til mín, ég spurði í sífellu. Fékk engin svör. Tengdó tók um axlir mínar, við grétum sáran. Þú varst að fara frá okkur, drengurinn sem við elskuðum. Hve lítil sandkorn á fjöru lífsins við vorum, svo varnarlaus, svo ráðalaus. Líf án þín var okkur óhugsandi.

Klukkan tíu varstu allur. Grátur okkar fyllti kalda sjúkrastofuna. Sorgin þyngdi hjarta mitt, fyllti huga minn, yfirbugaði líkamann.


10

Þú varst jarðaður á laugardegi. Hvítur snjórinn huldi jörðina kring um djúpa og dimma gröfina. Þú lást í hvítri kistu, sem beið eftir að vera færð ofan í kalda jörðina. Gylltur kross skreytti hana að ofan, krans rammaði hann inn; borði blakti í golunni. Himininn dimmur.
Tár mín frusu á kinnum, ég hné niður af sorg og söknuði. Faðir þinn studdi við mig, reyndi að hughreista en ekkert huggaði hjarta mitt. Móðir þín og börn voru, líkt og ég, frá sér af harmi, grétu sáran, söknuður sat eftir. Tár okkar frusu á kistu þinni.

Að hugsa um þig, liggjandi í þessum kassa, varð mér um megn. Ég sá þig þar, klæddann í fallegu jakkafötin sem við höfðum valið saman. Með bréfið sem ég hafði skrifað til þín daginn sem þú lést milli handanna. Skildi ekki hversvegna þú varst tekinn frá mér á þessum tíma, þessari stundu. Framtíð okkar svo björt, vonirnar svo miklar. Lágu nú í köldum kassa, sem seig hægt ofan í gröfina, sem beið eftir að yrði mokað ofan í hana á ný; mokað yfir framtíð mína, vonir og drauma.

Um kvöldið, þegar öllu var lokið, sat ég og grét í tómri risíbúðinni. Kveikti á kerti við myndina sem ég hafði tekið af þér sumarið áður. Horfði á þig, hugsaði um okkar yndislegu stundir, saknaði þín meira og langaði að deyja. Fara til þín, vera hjá þér, þótt það kostaði mig lífið. Því hafði ég ekki krafist þess að þú tækir leigubíl? Því hafði ég ekki farið með þér? Því var ég eftir án þín?

Spurningar leituðu á hugann, ég grét meira, sárar. Líf mitt varð allt í einu tómt, svo líflaust og dimmt. Vonin sem kviknað hafði í hjarta mínu hafði verið tekin frá mér eins fljótt og hún kom. Slíkt kæmi aldrei aftur.


11

Ár er liðið, ég sakna þín enn. Við gröf þína stend ég; aldrei kemur þú aftur. Bros þitt horfið að eylífu; ást þín hlýjar mér ei framar. Tár renna niður kaldar kinnar mínar, hjarta mitt grætur. Hringurinn enn á fingri mínum; frá þér - til mín. Blóm liggja á gröf þinni. Frá mér horfinn – að eylífu.  
Ólafur Skorrdal
1970 - ...


Ljóð eftir Ólaf Skorrdal

Spor
Lífið
Stemmning (I) — Rafmagnsleysi
Stemmning (II) — Morgun
Stemmning (III) — Löndun
Stemmning (IV) — Jarðarför
Stemmning (IX) — Regnið
Rót vorsins
Um þig - til þín