Þvílíkur dagur
Á landamærum
lands og sjávars
skyggnist ég yfir
það ógnþrungna land
er nefnum við haf

í dag er það blátt
sumstaðar grænt
þar sem skerin drottna
og geislarnir brjótast
úr óravíddum til botns
þaðan sem tími og rúm
afneita mennskum hugtökum
og kristallast í dans
ljóss og lífs

við horfumst í augu
ég og selurinn
landamæraverðirnir
á mótum lagar og láðs

hvað villt þú upp á dekk
landkrabbi spyr hann hlæjandi
vilt þú fræðast um vorn heim
okkar ógnþrungna heim
þar sem baráttan situr
í fyrirrúmi
og drottnar upp á líf og dauða

hvort er hann að koma eða fara
sá sem býður mér leiðsögn
um þá votu sali
spurnin lifir
í augum okkar beggja
hann hverfur án þess að svara
einsog allt sem hafið gleypir

á meðan blíðlyndar ránardætur
gæla við fætur mínar
í flæðarmálinu
og blærinn kyssir mitt eyra

ég lít yfir hafið
á sjóndeildarhringinn í fjarska
vakna við vélarskelli
er bátskel er haldið til lands
hæruskotinn maður í skuti
gerir að afla og fuglinn fylgir
í kjölfarið þöndum vængjum
hann gaf sig til sá guli
og gleðin í öndvegi

þanghafið iðar
og þarflaust að segja
í dag ríkir gleðin
og orðlaus dýfi ég hendi
í gin hafsins

þó býr í gleðinni bergmál
af brothljóðagný
frá liðnum vetri
er særinn herjaði í ofsa og heift
lagði í rúst hjáleigur þangsins
en er ekki allt fyrirgefið
á þvílíkum degi.  
Janus Hafsteinn Engilbertsson
1942 - ...
Þetta ljóð er úr ljóðabók minni MISVÍSUN frá 1984.En er hér lítillega breytt.


Ljóð eftir Janus Hafstein

Á vordögum
Þvílíkur dagur
Haustlauf
Endurkoma
Uppgjör daganna
Eftirmáli
Kvótablús
Skipið
Trú
Gamall vinur
Á sama tíma
Fríða frá
Þagnar ljóð
Eina ástin
á bryggjunni
Nálaraugað
Vetrarsólstöður
Stafalogn
Úreldir
Að lifa
Að fæðast
Þunglyndi
Efinn
Meira en veðurspá
Steinarr í maga úlfsins
Lænur himins
Faðmlag
Að sigla
Jafnvægi
Máttvana
Vorboði
Vinur
Ljóð vegur mig
Kvótablús taka tvö
innistæðulaus orð
Dagatal
Sólarlandasæla
Í kvöld er ég glaður
Undir sænginni
Ísland í dag
Konu eins og þig
Örlög
Raunasaga
Aflaklóin
STAM