Það er einskonar
þögult öskur sem tekur völdin, stundum.
Núna.

Þegar umhverfið magnast milljónfalt upp í ærandi þögninni
sýnir sig alls óyfirstíganlegt
en þó svo lítilvægt
allt svo smátt
en saman myndar það heild
svo stóra að það er fáránlegt, óásættanlegt, hneykslanlegt og
tilraunir til að varna þessari innrás alls sem er inní skilningarvitin eru andvana fæddar.

Þá er ekki annað að gera en að sleppa ímynduðu takinu til fulls
leyfa hugsanakeðjunum að hlykkjast óáreittum,
flæktum þvers og kruss eftir endalausum sekúndum
sem tifa í takt við ó svo ærandi hjartsláttinn
eilíflega staðnaðan á sama slaginu.

Kannski mig vanti bara knús. Kannski vantar mig þig og ég segi það hér þótt þú sért annarsstaðar. Kannski erum við fleiri.  
Erla Elíasdóttir
1984 - ...


Ljóð eftir Erlu Elíasdóttur

Bruni um nótt
Án titils
Hjartað er stimpilklukka
Ólga
Það er einskonar
Vandleg andamál
Formendaspá
Samt sumt
2SÞ
Ekkisens