Sextugur
Í fannkynngi og myrkri ég fæddist í heim
Ég finn hve það misráðið var
en sé þetta skömm mun hún skella á tveim
og skaparinn meðsekur þar.
Í sveitinni minni bjó fátæktarfólk
en friður var hjörtum þess í
og drykkurinn oftast nær mysa eða mjólk
svo meint varð ei neinum af því.

En tímarnir breyttust að heiman ég hélt
og hlykkjótt var slóðin mín þá
en tískunnar kónga ég aldrei hef elt
þar ákveðinn beygði ég hjá
en byðist úr glösunum hin görótta veig
ég gerði henni sæmileg skil
og sjónin mín skerptist með sérhverjum teig
það segja ég fólkinu vil

Og nú er ég aldraður orðinn og grár
það óvissan tekur í senn
já karlinn er alltaf með eindæmum þrár
segja alvöru og raunsæis menn
Úr skammdegis myrkri ef er skundað af stað
engu skiptir hve mörg verða spor
ef að loksins það finnst sem að leitað er að
þetta ljósríka heillandi vor

Aðalsteinn Ólafsson
1917 - 1998  
Aðalsteinn Ólafsson
1917 - 1998


Ljóð eftir Aðalstein Ólafsson

Öskjugos
Sextugur
Glugginn
Geislar skína skærir,
Í leit að lífsins gæðum
Holdið er veikt
Þráhyggja
Gáta
List
Morgunleikfimi
Biðin
Ljóðasmiður
Prangarar í pólitík,
Við syngjum ljóð á sumardegi glöðum
Silungsveiði
Skáld
Ein lítil þjóð við eld og ís
Við fákæn leggjum flest af stað