Defetus I
Hvers vegna grét ég?
Hvers vegna komst ég í slíkt uppnám
þegar verkið var jafn þarft?
Ég man eftir tillitslausu, hvítklæddu fólki
og ljótum skúlptúr í anddyrinu.
Við föðmuðumst eins og við hefðum drýgt glæp.
Við biðum eftir bíl, ég grét en þú
hafðir þegar grátið.


Hví skyldi ég hafa samviskubit?
Ég hef séð Clov snúast kringum Hamm.
Ég hef séð Gloucester með blæðandi tóftir.
Ég hef séð myrkrið sem er bara myrkur.
Og ég veit að lífið er skúlptúr í anddyri stofnunar.
Lífið er ljótt.


Ég man eftir pössun lítils manns,
úti á klöpp í fölskvalausri kyrrð,
hjalandi, fullum áhuga á öllu sjálfsögðu,
skeiðandi djarflega fram völlinn,
hopandi skjótt frá uggvænlegum fyrirbærum,
svarandi aðfinnslum snúðugt,
ásælnum í kexbaukinn.
Börn gefa foreldrum sínum líf.
Engum er greiði gerður með því að fæðast.
Erfðu það ekki við okkur, kríli.
Við vorum að gera þér greiða.
Ég elska þig, ekki-vera.
Annars væri ég það líka.
 
Kári Páll Óskarsson
1981 - ...


Ljóð eftir Kára Pál Óskarsson

Að byrja
Defetus I
Defetus II
Svelti
Tilbrigði við Niemöller
Oubliette