Barnsminni (lengra)
hvers vegna brosa börnin
þegar þú horfir í augu þeirra?
hvers vegna hlaupa folöldin
á kyrrum vorkvöldum?
hvers vegna fara lömbin
í eltingaleik á túninu?

af því þau þekkja ekki
framtíðina sem stendur álengdar

sem bíður eftir þeim eins og
hvítklæddur öldungur
með torræðan svip
og kallar þau til sín
þegar þau eru tilbúin

lækurinn sprettur upp úr
lindinni, tær eins og
sannleikurinn, gegnsær
eins og gler

þegar ég var barn
lék ég mér oft í bæjargilinu
og hlustaði á lækinn
hríslast á milli steinanna

stundum á kvöldin
þegar hljóðbært var
heyrði ég þungan dyn í fjarska

löngu seinna
komst ég að því
að þetta var niðurinn í stóra fljótinu
handan við heiðina
þangað sem vegurinn lá

þetta var niðurinn í stóra fljótinu
sem að lokum
hremmdi litla lækinn úr gilinu
og bar hann til sjávar

þegar ég var barn!

hvað er ég núna?

tíu stafa kennitala,
vegabréf,
færsla í þjóðskrá

tannhjól í úrverki
heimsvædds
hagkerfis

örsmá eining í
hagtölum
Seðlabankans

ég heyri ekki lengur
í stóra fljótinu
fyrir flugvélagný
og glamri í
steypudælum

nú leik ég mér á
róluvelli lífsbaráttunnar

og hlæ til að komast
í gegn um daginn
 
Þorsteinn Sverrisson
1964 - ...


Ljóð eftir Þorstein Sverrisson

Limrur
Arfgengi
Afturgöngur
Flugan og ég
Um nótt
Sættir
Að vorlagi
Barnsminni (lengra)
Sitjandi fólk
Nokkrar vísur um fallandi snjókorn og ýmislegt annað sem fellur
Dufþakur