Nóttin
Þögult og einbeitt myrkrið
flæðir seigfljótandi yfir allt sem á vegi þess verður,
en gerir birtunni samt svo greinargóð skil.
Það umlykur allt
og hræðist ekkert
nema ljósið.

Ég horfi á vitann reyna að skera dimmuna hring eftir hring
en fljótandi rökkrið flæðir jafnóðum yfir og græðir sárið.
Vitinn gefst ekki upp og heldur ótrauður áfram.
Hring eftir hring eftir hring.
Nótt eftir nótt eftir nótt,
hrærir hann í dimmusullinu.

Tunglið þröngvar sér leið
finnur sér örmjóa smugu
og treður geislanum sínum í gegn.
Kemst niður að haffletinum
en breytir þar stefnunni
þráðbeint á mig.

Kvöld eftir kvöld
og nótt eftir nótt
miðar tunglið á mig
ekki ógnandi,
en hvikar aldrei.
Þó reyna skýin stundum að bjarga mér.

Lengst uppí himnafestingunni
eru ljósin kveikt.
Það skín gegnum pínulitlu götin á gólfinu hjá þeim uppi.
Þau styrkjast og dofna á víxl
einsog þau séu að reyna að vekja á sér athygli
eða senda mér skilaboð.

Undir gjálfrandi öldunum
sem dansa í geislanum frá tunglinu
og stjörnubliki,
leika sér fiskar.
Fiskabörn og fiskamömmur
og kannski fiskapabbar.
 
Kristjón
1970 - ...


Ljóð eftir Kristjón

Spor
Leit
Hver er maðurinn?
Framíköll
Klukkutími
Orðabækur
Insomnia
Trúður glatast
Valkyrjur
Starfskraftur óskast!
Jöfnuður
Yfir öxlina
Þægilegur maður og notalegur
Ég veit vel að ég er til
Stór kaupmaður
adjö
Hvað eru skáldin að fela?
Heigull
Að skapa heima
Samvizka
Nóttin
Helgi