Nokkrar vísur um fallandi snjókorn og ýmislegt annað sem fellur
Einar á Efri Hjalla
allskonar fræði kann.
Snjókornin falla og falla,
fellur mér vel við hann.

Fegurðin upp til fjalla,
fyrst þegar hana sá.
Snjókornin falla og falla,
féll ég í stafi þá.

Ég ógæfu yfir mig kalla
ánetjast fjárhættuspil.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur þó eitthvað til.

Þó að ég ýti á alla
enginn samt færist úr stað.
Snjókornin falla og falla,
fallast mér hendur við það.

Ingvar er alltaf að dralla,
annað eins hef varla séð.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur það ekki í geð.

Hann var með heilmikla galla,
hún var ógurlegt skass.
Snjókornin falla og falla,
hún féll eins og flís við rass.

Bændur í sveitinni bralla
braska með hrúta og ær.
Snjókornin falla og falla,
það féll á einn víxill í gær.

Langan veg heimleiðis lalla
lúinn með augu hvít.
Snjókornin falla og falla,
fell ég í svefn og hrýt.

Það á ekki við um alla,
ég óvæntan glaðning hlaut.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur gæfan í skaut.

Eins og svarkur ég svalla
svartfullur verð og ær.
Snjókornin falla og falla,
ég féll á bindindi í gær.

Dama er kölluð Dalla,
Davíð finnst ekki ljót.
Snjókornin falla og falla,
hann féll fyrir þessari snót.

Ef blíðlega höfðinu halla
hún verður kát og glöð.
Snjókornin falla og falla,
allt fellur í ljúfa löð.

Forynjur inn til fjalla
fara á stjá í kveld.
Snjókornin falla og falla,
mér fellur ketill í eld.

Þú ert ekki með öllum mjalla
þær mæltu og sendu mig heim.
Snjókornin falla og falla,
ég féll ekki í kramið hjá þeim.

Ýmsir mig aula kalla
að mér presturinn hló.
Snjókornin falla og falla,
er féll ég um koll og dó.
 
Þorsteinn Sverrisson
1964 - ...
Snjórinn er fyrir jörðina eins og nivea krem fyrir húðina. Styrkir hana og gefur hraustlegt útlit. Snjórinn léttir líka lundina og svei mér þá ef hann eykur ekki skáldagáfuna, eða öllu heldur þá viðleitni að rembast við að yrkja burtséð frá hæfileikum. Snjókornin sem falla ofan úr skýjunum virka eins og gleðipillur á þreytta jarðálfa og vonandi halda þau áfram að falla og falla enn um sinn.


Ljóð eftir Þorstein Sverrisson

Limrur
Arfgengi
Afturgöngur
Flugan og ég
Um nótt
Sættir
Að vorlagi
Barnsminni (lengra)
Sitjandi fólk
Nokkrar vísur um fallandi snjókorn og ýmislegt annað sem fellur
Dufþakur