Til móður minnar
Elskuleg kæra móðir mín
minnist ég góðrar æsku,
ástrík og hlý var höndin þín,
hjarta þitt fullt af gæsku,
svo að ég festi sætan blund
söngst þú hjá mér á stokknum,
síðan fórst þú á sellufund
í sósíalistaflokknum.

Brestir í Viðreisn heyrðust hátt,
heimsbyggðar auðvald læddist
veggjum með fyrir vopnum grátt,
vasklegan flokk þinn hræddist,
en ef að þar í odda skarst
illa fór margur kratinn,
sigurreif heim komst svo og varst
sjaldan með fisk í matinn.

Aumlegt er núna austan tjalds,
auðvaldið tökin herðir,
til er ei neinn til trausts og halds,
tekjurnar íhald skerðir,
vinstri menn engum veita hlíf,
vilja til hægri brokka,
nú eiga valdsmenn náðugt líf,
nú ertu utan flokka.  
Jón Ingvar Jónsson
1957 - ...


Ljóð eftir Jón Ingvar Jónsson

Kvöldvísa
Netsonnetta að nóttu
Íslenskt morgunljóð
Til móður minnar
Aðventuljóð
Björn Hafþór fimmtugur
Óður til Þjóðkirkjunnar
Vökuljóð á skerplu