Morgot
Húki útí horni inni á bar og sötra bjór
Harma það sem áður fór
Í mér logar samviskunnar miskabál
Döpur minning þjáir þreytta sál

Ég minnist föður sem sæði lífsins sáði
laga hans og viðmiðs sem mér háði
Hann gaf mér völ en ég fékk þó ekki samið
Hlaut þá dóm þó glæp ei hefði framið

Sár og bitur sór ég arfleið hans að eyða
og hans börn í villigöngur leiða
Í svartamyrkri skyldu fá að hírast
þar sem varnarleysi þeirra væri skýrast

Þau skyldu fá að kynnast ógn og hroða
og aldrei lifa nema í vá og voða
Öll þau skyldu mínum dómi sæta
uns köldum dauða þjökuð myndu mæta



Hundrað þúsund harmakvein mig kvelja
nú hefnist mér mín staðfesta og elja
Panta annan bjór og fæ mér sopa
mér er bumbult - læt mér nægja að ropa

Eldar brunnu mér í hjartarótum
Er þeir stigu land þitt traustum fótum
Fyrstir fengu að bragða á bræði minni
betur hefðu fargað eigin skinni

Þeir sem síðar máttu dagsljós líta
Allir fengu sama dómi að hlíta
Hefndarþorstinn brann þó ei jafn heitt
er börn míns föður ótal hafði deytt

Eftirsjá er allt sem ég á eftir
Angist, eymd og sjálfshatur mig heftir
get ei lengur við minn sora unað
fæ ei af mér góða hluti munað

Harmur minn og voðaverk mig buga
Hokin lýt ég höfði, hvíli huga
Líkt og seytli úr gömlu svöðusári
svíður vanga undan föllnu tári
 
Vébjörn Fivelstad
1990 - ...
Ef nánar er rýnt í texta ljóðsins má greina tilvísanir í Silmerillinn. Til þess að gera þeim sem ekki hafa lesið bókina auðveldara fyrir skulu þær skýrðar hér enn frekar.
Í öðru versi er talað um lög alföðurs sem ljóðmælandi á erfitt með að sætta sig við. Orðið lög felur í sér tvíræða merkingu og má glöggur greina tilvísun í Silmerillinn því eins og kemur fram í fyrsta kafla verksins skóp alföður heiminn með söng. Sama gildir um orðið samið en óhlíðni Morgots við alföður kom fyrst fram er hann og aðrir hans líkar hjálpuðu alföður að skapa heiminn. Hann brást þá ítrekað eftirvæntingum alföðurs því í stað þess að fylgja söng hans söng Morgot af eigin innlifun og innblæstri. Gerði þá alföður jafnan hlé á söng sínum til að úthúða Morgot.
Enn frekar segir ljóðmælandi frá því í sjötta erindi að Eldar brenni honum í hjartarótum en orðið Eldar er samnefni yfir álfa í heimi Tolkiens sem Morgot hataði heitast. Einnig er orðið Er í sama erindi nafn alföðurs.
Aukinn skilning má öðlast á ljóðinu með þessar tilvísanir að sjónarmiði.


Ljóð eftir Vébjörn Fivelstad

Krísa
Hjúskaparlíf
Kvenkjöt
Morgot
Hreysti
Næturlíf
Barnseignir