Sólris
Nú leikur sérb lærinn í laufguðum greinum
án léttleika hugans ei leifist hér neinum
að líta hið silfraða skrúð.
Hann dansar í trjánum svo dillandi glaður
í dagrenning þýtur svo dæmalaust hraður
um döggvuðu laufhvolfin prúð.

Við upprisu sólar í árdagsins ljóma
allt iðar af lífi og alsnægtum blóma
og angan í loftinu býr.
Hver árrisull lítur sem augnabliks leiftur
þann almáttga frið sem í auðnu er greiptur
hvers orkar þá sólgeisli hlýr.

Sjá blómin sig opna við blikandi sólu,
sem brugðust með lokuðum bikar við njólu,
þau baða sig ljósinu í.
Af döggvotu grasinu drekkur svo jörðin
er dropar svo ljúffengir drjúpa á börðin
og dalurinn blómstrar á ný.

Hvert árroðans sindur á öndverðum degi
sem augnablik hugans á óförnum vegi
er andanum svölun og fró.
Hver örlítill geisli er árblik þér sendir
er athygli verður og áfram þér bendir
að andlegri íhygli og ró.

Er hækkar sig röðull á himninum björtum
svo hlýnar í lofti, með hamingju í hjörtum
við höldum mót lífinu glöð.
Nú dagurinn brosir svo dæmalaust fagur
og dísirnar kveða, hve dýr er sá bragur
en dulúðug stundin og hröð.

Með sólblik í auga og sindrandi hjarta
af syngjandi gleði, í sólskinið bjarta
og sumarið göngum við inn.
Við gleðina finnum á guðlegum degi
og gæfuna föngum á gjörvöllum vegi
með geisla í huga um sinn.






 
Dagbjartur Sigursteinsson
1934 - ...


Ljóð eftir Dagbjart Sigursteinsson

Vorkvöld við sæinn
Vorkoma nýrrar aldar
Stormur
Þú ert
Sólris
Selvogsgata.