Fjallalækur
Fallegi, litli lækur
mig langar að heyra þig syngja
hlusta á dansandi dropa
á döggvotum steinum klingja.

Síkáti, seytlandi lækur
þinn söngur að eilífu hljómi
er fellur þú stall af stalli
í stöðugum frelsisómi.

Kankvísi, kliðandi lækur
ég kom til að hlusta á niðinn
æ, lof mér að syngja líka
ljóð um ástina og friðinn.

Gefðu þeim, litli lækur
sem líkna hér þorsta sínum
það yndi, þá fegurð og frelsi
sem finnst í kvæðunum þínum.  
Hannes Sigurðsson
1960 - ...


Ljóð eftir Hannes Sigurðsson

Laugardagskvöld við Strandgötuna
að hrökkva eða stökkva
Tindátar
Á páskaföstu í Eyjafirði.
Íslenska vorið
Efst á Baugi
Rím.
Fjallalækur
tungl í fyllingu