Hafið
Í kringum kúlulaga öskrandi yfirborð
hleypur þú
með útbreyddan faðm
og tryllingslegt blik í augunum,
eins og allt sé að hverfa
nema þú.
Á brjósti þínu brotnar himininn
í ótal smáar agnir
og freyðir hvítur
milli þín og umheimsins,
kitlar þig og kvelur þig
svo þú hrópar upp yfir þig.
Ef þú sérð þér færi á að setjast
pínu stund,
hnígur örmagna niður milli grjóta
og kletta,
ertu vakinn með hraði.
Og með lokuð augu ríst þú á fætur
byrjar að hlaupa
og umvefur gömul fótspor
með hálf syfjulegu brosi.
Fegurð þín er afstæð
þegar þú þýtur áfram.
Kraftur þinn og elja endalaus.
Því í flýtinum gleymdirðu að gæta þín
og grófst úr fjöllunum,
byltir um bátnum.
Og með bátnum hvarf maður konu
sem beið við hlið þér
og bætir nú tárum við veldi þitt.
En ferðalangur,
þú ert þó öruggur hvílustaður.
Og á fingurgómum þínum
dansa þeir sem þig dvelja,
langþreyttir.
Í kringum kúlulaga öskrandi yfirborð
hleypur þú
með útbreyddan faðm
og ég heyri þig brosa,
ég heyri það á rödd þinni
og sé það á blikinu í augum þínum.
Jafvel þó þú hræðir mig.  
Þórey Ómarsdóttir
1983 - ...


Ljóð eftir Þórey Ómarsdóttur

Ást
Án nafns
Döggin
Án nafns
Á bak við
Hafið
Líf