21. janúar 2025
Páll Austmann
Meira um höfund:
Ja, hvað skal segja? Ég hef alltaf elskað orð og fundist þau vera leyndardómurinn að heiminum.
Það var samt ekki fyrr en nýlega sem ég áttaði mig á því að ég gæti skrifað. Líklega gerði gæfumuninn samtal sem ég átti við ljóðskáld í jólahlaðborði í fyrra (2005). Hann greindi hjá mér þessa einlægu ást á orðum og spurði mig hvort ég hefði aldrei skrifað neitt sjálfur. Ég varð hvumsa, enda jarðbundinn maður, og neitaði. Hann sagði mér að enginn vissi fyrr en hann vissi, og að enginn vissi hvort hann vissi fyrr en hann reyndi að framkvæma.
„Þú kannt ekki að synda fyrr en þú fleygir þér út í djúpu laugina“ sagði hann, og bætti við: „Og það er miklu betra að fleygja sér út í djúpu laugina, þú skellur að minnsta kosti ekki með hausinn í botninn ef þú stingur þér af öllu afli. Grunna laugin er miklu hættulegri. Þetta vita ekki margir.“
Þetta samtal sat í mér yfir villibráðinni, súkkulaðifrauðinu og koníakinu - og strax seinna um nóttina byrjaði ég að skrifa. Það verður að játast að ég var soldið kenndur þegar ég byrjaði, en ég byrjaði allavega. Daginn eftir, þegar ég leit yfir það sem ég hafði skrifað, sá ég að ég þyrfti aðeins að slaka á í tilfinningaseminni og myndlíkingunum - það hefur sennilega verið koníakið sem setti það allt af stað. Eða Drambuie-ið. Eða jafnvel þessi lakkrísskot sem mér var boðið upp á seint um nóttina á einhverjum sófabar í verksmiðjuhverfi í Kópavogi. Það skiptir kannski ekki máli hvers vegna.
Eftir þetta byrjaði ég að skrifa markvisst, einkum eldsnemma á morgnana áður en heimurinn hefur snúið sér í gang og lætin í honum hefjast. Ég heyrði einhvern tímann einhvers staðar að í andlegu lífi plánetunnar væri heilagasti tíminn rétt áður en sól rís - svona eins og kasólétt kona í miðjum sveittum hríðum gefur einmitt ALLT sem hún á rétt áður en barnið stingur höfðinu út um sköp hennar. Sama element, held ég.
Í öllu falli er ég byrjaður að skrifa og það hentar mér vel sem áhugamál - ekki spila ég golf eða drápstölvuleiki, ekki reyni ég að berjast fyrir heimsfriði í rökkvuðum kjöllurum, ekki fer ég á myndlistaropnanir til að ná mér í ókeypis léttvín og egófóður fyrir sjúka sál mína með því að sýna mig og sjá aðra sjá mig.
Ekki get ég horft á sjónvarpið, þann viðbjóðs viðbjóð alls viðbjóðar - svo eitthvað verð ég við tíma minn að gera. Þannig að, kæru landsmenn, stjórnendur ljóð.is og notendur: hér er ég mættur og alls ekki hættur! Kveðja, Páll Austmann, Englandi.