Þjóðfundarsöngur 1851
Aldin móðir eðalborna,
Ísland, konan heiðarleg,
ég í prýðifang þitt forna
fallast læt og kyssi þig,
skrípislæti skapanorna
skulu ei frá þér villa mig.

Þér á brjósti barn þitt liggur,
blóðfjaðrirnar sogið fær,
ég vil svarinn son þinn dyggur
samur vera í dag og gær,
en hver þér amar alls ótryggur
eitraður visni niðrí tær.

Ef synir móður svíkja þjáða
sverð víkinga mýkra er,
foreyðslunnar bölvan bráða
bylti þeim sem mýgjar þér,
himininn krefjumst heillaráða
og hræðumst ei þótt kosti fjör.

Legg við, faðir, líknareyra,
leið oss einhvern hjálparstig,
en viljirðu ekki orð mín heyra,
eilíf náðin guðdómleg,
skal mitt hróp af heitum dreyra
himininn rjúfa kringum þig.

Móðir vor með fald og feldi
fannhvítum á kroppi sér,
hnigin að ævi kalda kveldi,
karlæg nær og holdlaus er.
Grípi hver sitt gjald í eldi
sem gengur frá að bjarga þér.

Sjáðu, faðir, konu klökkva
sem kúrir öðrum þjóðum fjær.
Dimmir af skuggum dauðans rökkva,
drottinn, til þín hrópum vér:
Líknaðu oss eða láttu sökkva
í leg sitt aftur forna mær!  
Hjálmar Jónsson frá Bólu
1796 - 1875


Ljóð eftir Hjálmar Jónsson frá Bólu

Ellikvæði
Þeir, sem lasta ljóðin mín
[Signor einn]
[H. heyrði eitt sinn lát ríkismanns nokkurs, sem hafði verið harðbýll og miskunnarlítill]
Afgangur af borgaðri skuld
Kveðið í bakarahúsinu á Akureyri 1873
Heimspekingurinn
Sálarskipið
Þjóðfundarsöngur 1851
Söngur fyrir Venus minni
Ferðalagið
Stirt um stef
Mannslát
Lífskjör skáldsins