[Signor einn]
Signor einn, er svartur var,
sunnan kom úr dölunum,
heim að mínum húsum bar,
hafði verk í mölunum,
gaurinn beiddi gistingar
og grýtti af sér hjölunum,
honum gaf ég svoddan svar,
sitja mætti á fjölunum,
gleypti hann mat í garnirnar,
gnagaði af suðarvölunum,
lapti upp mysu leifarnar,
líkur reyðarhvölunum,
um skuld mig krafði, skakkt upp bar,
skeikaði ríkisdölunum,
líka þreif til lummunnar,
lauk upp reikningsskjölunum,
gjaldið ég í geði snar
greiddi að fölskum sölunum,
svo honum yrði hlýrra, – en hvar?
Í helvíti og kvölunum.
 
Hjálmar Jónsson frá Bólu
1796 - 1875


Ljóð eftir Hjálmar Jónsson frá Bólu

Ellikvæði
Þeir, sem lasta ljóðin mín
[Signor einn]
[H. heyrði eitt sinn lát ríkismanns nokkurs, sem hafði verið harðbýll og miskunnarlítill]
Afgangur af borgaðri skuld
Kveðið í bakarahúsinu á Akureyri 1873
Heimspekingurinn
Sálarskipið
Þjóðfundarsöngur 1851
Söngur fyrir Venus minni
Ferðalagið
Stirt um stef
Mannslát
Lífskjör skáldsins