Söngur fyrir Venus minni
Gott mér þótti að gilja píku,
gleymi eg aldrei hnossi slíku
héðan frá,
undir voðar værri hlýku
vafinn skarti elskuríku,
dillilká.

Krenktur af gigt með köldu sinni
kúri eg nú á gæruskinni
hundum hjá,
þó er ætíð mér í minni
máluð upp á lífstíðinni
gullhrings Gná.

Þegar genginn er eg aftur
og ellibelgur minn er taptur,
látum sjá!
Endurherðist amors raftur,
af því eg var þar til skaptur
að liggja hjá.

Nú þó eg sé þrekkur þjóða
og þvaga saurug meðal fljóða,
gnæp og grá,
síðar einhver trefla tróða
tekur mig í faðminn góða,
hana þá!

Gott mun vera á Gimli búa,
glaðværum að fljóðum snúa,
æi já!
Mjúkum saman mögum núa
og mega velja úr hópnum frúa.
Gloríá!

Hvað er mér í skrítni skrafa,
skakkrössuðum druslulafa;
þrautir þjá.
Mig ei vilja hrundir hafa,
hnýta mér við dýraklafa
og fljúga frá.

Kreppi eg undir kviðinn fætur,
kaldur og frosinn allar nætur;
þrautir þjá.
Ofan á mig enginn lætur
af sér pilsið svanninn mætur,
svei mér þá!

Væri eg skáld og kynni kviður,
kveða skyldi eg ykkur niður
allar já
jafndjúpt mér á fletja fiður,
svo fangið sneri mjúkt á yður
að mér þá.

Út frá mínum eymdum deyja
eg fer bráðum. Skal eg þegja
og slöku slá.
Í björtum flokki blíðheims meyja
betri mun eg ljóð fram segja.
Amen, já.  
Hjálmar Jónsson frá Bólu
1796 - 1875


Ljóð eftir Hjálmar Jónsson frá Bólu

Ellikvæði
Þeir, sem lasta ljóðin mín
[Signor einn]
[H. heyrði eitt sinn lát ríkismanns nokkurs, sem hafði verið harðbýll og miskunnarlítill]
Afgangur af borgaðri skuld
Kveðið í bakarahúsinu á Akureyri 1873
Heimspekingurinn
Sálarskipið
Þjóðfundarsöngur 1851
Söngur fyrir Venus minni
Ferðalagið
Stirt um stef
Mannslát
Lífskjör skáldsins